Hlaða bílana á mesta álagstíma

Mælingarnar sýna að flestir rafbílaeigendur setja bíla sína í hleðslu …
Mælingarnar sýna að flestir rafbílaeigendur setja bíla sína í hleðslu þegar þeir koma heim úr vinnunni og hlaða þá þannig á mesta álagstíma.

Rafbílaeigendur hlaða flestir bíla sína á mesta álagstíma raforkukerfisins. Sé raforkuálaginu hins vegar stýrt getur Orkuveitan vel annað 50.000 rafbílum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í lokaverkefni Kristjáns E. Eyjólfssonar til BS-gráðu í rafmagnstæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Kristján skoðaði í verkefni sínu hvort rafdreifikerfi höfuðborgarsvæðisins ráði við þá fjölgun rafbíla sem spáð er, en verkefnið vann hann í samstarfi við Veitur og Orkuveituna og voru niðurstöðurnar kynntar á Vísindadegi OR í vikunni. 

Kristján segir rannsóknina hafa verið gerða með því að setja mæla í götuskápa við einbýlishús og að mæld hafi verið sambærileg hús sem voru með rafbíla og svo hús þar sem ekki voru rafbílar og gerð samanburðarmæling á þeim. „Fram að því þá vissum við ekki hvernig rafbílaeigendur eru að haga hleðslu sinna bíla,“ segir hann. „Hvenær þeir eru að hlaða bílana og hvort álagið á kerfið sé miklu meira en hjá þeim sem eiga ekki rafbíla.“

Notkunin var mæld á á fjögurra vikna tímabili frá 15. desember til 12. janúar og svo aftur um sumarið frá 15. júní til 12. júlí. „Álagið á kerfið er alltaf mest um jólin og svo minnst á sumrin þannig að það var forvitnilegt að sjá muninn á því.“

Hlaða bílana eftir vinnu

Kristján segir mælingarnar hafa sýnt að rafbílaeigendur setja bíla sína í hleðslu þegar þeir koma heim úr vinnunni og hlaða síðan bíla sína fram yfir miðnætti. „Þetta álag bætist ofan á núverandi álag, enda er mesta álagið á dreifikerfið á þessum tíma,“ segir hann. Þetta sé sá tími sem flestir nýti til að elda mat, þvo þvott og horfa á sjónvarp. „Síðan bætist hleðsla rafbílsins við akkúrat á sama tíma.“

Kristján E. Eyjólfsson rafmagnshönnuður segir Orkuveituna fá fjölda fyrirspurna frá …
Kristján E. Eyjólfsson rafmagnshönnuður segir Orkuveituna fá fjölda fyrirspurna frá íbúum fjölbýlishúsa sem ekki viti hvernig þeir eigi að bera sig að ef þeir ætli að skipta yfir í rafbíl. Ljósmynd/Aðsend

Hann bætir við að Orkuveitan sé síður en svo mótfallin fjölgun rafbíla. „Við erum raunar mjög jákvæð fyrir henni og viljum stuðla að því að fólk fái sér rafbíla,“ segir Kristján sem eftir útskrift hefur starfað sem rafmagnshönnuður hjá Veitum. „Þetta er þó nokkuð sem við viljum vekja athygli á og við eigum mikið af raforku sem hægt er að nýta á nóttunni.“ Raforkunotkun sé enda lítil á þeim tíma sólarhrings.

Kristján segir Orkuveituna líka ráða vel við fjölgun rafbíla, ef hleðslu bílanna er álagsstýrt. „Það er búið að rannsaka þetta fyrir Orkuveituna og fyrirtækið getur vel annað 50.000 rafbílum með álagsstýringu.“ Án hennar þurfi hins vegar mögulega að fjölga eða stækka heimtaugar.   

Fá mikið af fyrirspurnum frá íbúum fjölbýlishúsa

„Það geta allir fengið sér rafbíl. Það er ekkert mál í dag, en í sumum tilfellum er hægt að koma mun fleiri rafbílum að með stýringu á  álaginu,“ segir Kristján og kveður Orkuveituna fá fjölda fyrirspurna frá íbúum fjölbýlishúsa sem ekki viti hvernig þeir eigi að bera sig að ef þeir ætli að skipta yfir í rafbíl. 

Hann nefnir sem dæmi að íbúðaeigendur í fjölbýlishúsi nokkru hafi haft samband við OR og ætlað  að fá nýja heimtaug í húsið vegna rafbíla. „Það kostaði um fimm milljónir króna,“ segir Kristján. „Þegar ég skoðaði þetta sá ég hins vegar að það var alveg hellings afgangur á núverandi heimtaug og að svo framarlega sem álaginu var stýrt var engin þörf á nýrri heimtaug með tilheyrandi fjárútlátum.“

Fjölbýlishús séu í grunninn oft hönnuð með ákveðna heimtaugastærð sem gerð er miðað við ákveðið álag á mesta álagstímanum, sem er jafnan milli kl. 17 og 19 á daginn. „Ef rafbílaeigendur í fjölbýlishúsi ætla að vera að hlaða bíla sína á sama tíma þarf mögulega stærri heimtaugar, af því að núverandi heimtaugar höndla ekki álagið þegar of mikið er í gangi. Ef fólk fær sér hins vegar hleðslustýringu eða hleður bílinn ekki á mesta álagstíma duga þessar heimtaugar oft fyrir rafbílana líka.“ Það sé þó vel skiljanlegt að stundum þurfi fólk að hlaða bílinn á álagstíma.

Spurður hvort Orkuveitan hafi einhverjar áætlanir uppi um að stýra orkunotkun, segir Kristján hugmyndir um að orkan væri ódýrari á nóttunni meðal þess sem rætt hafi verið. „Þetta hefur verið rætt og hvort hægt sé að fá fólk til að hugsa um þetta og hlaða þá frekar á nóttunni ef þess er kostur.“

Kristján við útskriftina úr HR ásamt foreldrum sínum Guðrúnu Þorsteinsdóttur …
Kristján við útskriftina úr HR ásamt foreldrum sínum Guðrúnu Þorsteinsdóttur og Eyjólfi Kristjánssyni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert