Prufa að greina krabba með blóðprufu

Blóðprufa. Mynd úr safni. Blóðprufan, sem vísindamenn gera nú tilraunir …
Blóðprufa. Mynd úr safni. Blóðprufan, sem vísindamenn gera nú tilraunir með, greinir agnir sem 16 mismunandi æxli senda frá sér. AFP

Vísindamenn við John Hopkins háskólann gera nú tilraunir með blóðprufu sem á að geta greint átta mismunandi tegundir af krabbameini. Hugmyndin að baki blóðprufunni er að þróa blóðprufu sem tekin verði árlega og hjálpi þannig til við að greina krabbamein snemma og auka þar með batalíkur. Fjallað er um málið í vísindatímaritinu Science.

BBC hefur eftir breskum sérfræðingum að um „verulega spennandi“ tilraun sé að ræða.

Æxli gefa frá sér örlitlar agnir af stökkbreyttu erfðaefni sínu og próteinunum sem þau framleiða og senda út í blóðið.

Prófið ber heitið Cancer Seek og er því ætlað að leita að stökkbreytingum í 16 genum, sem reglulega greinast  vegna krabbameins, sem og átta prótein sem sum æxlin senda frá sér. Gerðar hafa verið prófanir með blóðprufuna á 1.005 krabbameinssjúklingum sem ýmist voru með krabbamein í eggjastokkum, lifur, maga, brisi, vélinda, ristli, lungum og brjóstum og hafði krabbameinið hjá þeim sem tóku þátt í prófununum ekki enn dreift sér til annarra vefja líkamans. 

Í 70% tilfella tókst að greina krabbameinið með blóðprufunni.

„Þessi gerð snemmgreiningar skiptir öllu máli og niðurstöðurnar eru mjög spennandi,“ sagði Dr. Cristian Tomasetti, við Johns Hopkins læknaháskólann í samtali við BBC. „Ég tel að þetta geti dregið verulega úr fjölda dauðsföllum af völdum krabbameins.

Því fyrr sem krabbamein greinist því betri líkur eru á að hægt sé að meðhöndla sjúkdóminn. Krabbamein í brisi hefur til að mynda svo fá einkenni að það greinist yfirleitt það seint að fjórir af hverjum fimm deyja árið sem þeir greinast.

Finnist æxli hins vegar er þau eru á því stigi að enn sé hægt að fjarlægja þau með skurðaðgerð þá myndi breyta verulega miklu,“ sagði Tomasetti.

Prófanir standa nú yfir á fólki sem ekki hefur greinst með krabbamein og er það að sögn BBC hið raunverulega próf á gagnsemi blóðprufanna. Vísindamenn vonast síðan til að blóðprufan geti nýst með sama hætti, og samhliða, brjóstamyndatökum fyrir brjóstakrabba og ristilspeglun fyrir ristilkrabba.

„Við sjáum fyrir okkur blóðprufu sem væri gerð einu sinni á ári,“ bætti Tomasetti við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert