Allar umbúðir verði úr endurvinnanlegu plasti

Talið er að ef fram sem horfir verður meira um …
Talið er að ef fram sem horfir verður meira um plast en fiska í sjó árið 2050. Ljósmynd/Thinkstock

Allar plastumbúðir verða gerðar úr endurvinnanlegu plasti fyrir árið 2030 samkvæmt nýrri áætlun Evrópusambandsins. Þá verður einnig dregið verulega úr notkun einnota plasts og skorður settar við notkun örplasts.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Evrópusambandinu. Er áætluninni til að bregðast við plastmengun ætlað að vernda náttúruna, verja íbúa og styrkja fyrirtæki.

„Ef við umbreytum ekki plastnotkun okkar og framleiðslu, verður meira af plasti en fiski í sjónum okkar árið 2050. Við verðum að koma í veg fyrir að plast komist í vatnið okkar, matinn og jafnvel í líkama okkar. Eina langtímalausnin er að draga úr plastúrgangi með því að endurvinna meira og endurnýta. Þetta er áskorun sem borgararnir, iðnfyrirtæki og stjórnvöld þurfa að tækla í sameiningu,“ er haft eftir Frans Timmermans, fyrsta varaforseta framkvæmdastjórnar ESB.

Áætlun ESB er sögð sú fyrsta sinnar tegundar, en henni er ætlað að stuðla að nýsköpun og hagvexti og vera um leið umhverfisvæn. Meðal markmiða hennar er að atvinnulífið hagnist á því að vera umhverfisvænt, sem og að dregið verði úr sóun almennt.

Löggjöf ESB hefur þegar dregið úr plastpokanotkun í nokkrum ESB-löndum. Nú er sjónum beint að öðrum einnota plastefnum, t.a.m. þeim sem eru notuð í veiðarfæri, á grundvelli rannsókna og samráðs við hagsmunaðila. Skorður verða settar við notkun örplasts og merkingar bættar.

Þá á að koma í veg fyrir plastmengun frá skipum og verða hafnir Evrópu útbúnar til að hamla frekari plastmengun sjávar. Eins á að ýta undir fjárfestingu og nýsköpun með því að setja 100 milljónir evra (12,6 milljarða ISK) í að þróa endurvinnanlegri plastefni.

Minna en þriðjungur af því plasti sem Evrópubúar framleiða ratar í endurvinnslu og plastrusl er 85% af því drasli sem finnst á strandsvæðum víða um veröld. Þá eru plastefni jafnvel farin að koma sér fyrir í lungum fólks og á matarborðinu, þar sem örplast hefur greinst í lofti, vatni og fæðu, en áhrif þess á heilsu okkar eru enn óþekkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert