Sóttu erfðamengi löngu látins manns

Húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri.
Húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

 Árið 1818 kom til Djúpavogs farskip Örum og Wulffs. Með því kom maður sem hafði ferðast langan veg til að ná áfangastað. Maður þessi hafði borist alla leið frá Vestur-Indíum til að taka við verslun Örum og Wulffs á Djúpavogi, hét Hans Jónatan og var fæddur á St. Croix árið 1784 af konu sem var hörundsdökk ambátt.”

Svo segir í inngangi greinar frá árinu 1998 í vikublaðinu Austurlandi, um Hans Jónatan, sem talinn er fyrsti svarti maðurinn til að setjast að á Íslandi, en þess ber að gera að nýrri heimildir segja Hans Jónatan hafa komið til landsins löngu fyrir 1818, eða strax í upphafi 19. aldar.

Móðir hans hét Emilía Regína og var afrískur þræll á sykurplantekru Schimmelman fjölskyldunnar, en faðir hans er talinn hafa verið af evrópskum ættum.

Í grein sem birtist í gær í vísindatímaritinu Nature Genetics, er greint frá því hvernig vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar fóru að því að raða saman erfðamengi Hans Jónatans úr litningabútum 182 afkomenda hans.

Þetta er í fyrsta skipti sem tekist hefur að sækja erfðamengi löngu látins manns, að því er segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu.

Með því að bera kennsl á afríska litningabúta 182 afkomenda Hans Jónatans, tókst rannsakendum að púsla saman um 38% af þeim litningum sem hann fékk frá móður sinni, Emilíu Regínu.

Frá upptökum heimildamyndar um Hans Jónatan, sem frumsýnd var í …
Frá upptökum heimildamyndar um Hans Jónatan, sem frumsýnd var í fyrra.

Með samanburði á þessu endurraðaða erfðamengi við arfgerðir ýmissa hópa frá Afríku, sýndu rannsakendur fram á að uppruna Emilíu Regínu mætti rekja til þess svæðis í vestur-Afríku þar sem nú eru ríkin Benín, Nígería og Kamerún.

Á þessu svæði voru annað hvort Emilía Regína eða foreldrar hennar hneppt í þrældóm og flutt nauðug til St. Croix í Karabíska hafinu til að vinna á sykurekrum.

Sambærilegar aðferðir gætu nýst til að endurskapa erfðamengi annarra

Hans Jónatan giftist íslenskri konu, Katrínu Antoníusdóttur, eignaðist með henni tvö börn og eru afkomendur þeirra á Íslandi yfir 700 talsins.

„Hingað til hefur verið nauðsynlegt að hafa aðgang að líkamsleifum til að greina erfðaefni úr löngu látnum einstaklingum“, sagði Agnar Helgason, mannfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu og einn höfunda greinarinnar.

„Í þessari rannsókn tókst okkur hins vegar að púsla saman litningum Hans Jónatans, sem dó fyrir um 190 árum úr bútum sem afkomendur hans erfðu frá honum. Í einhverjum tilvikum gæti reynst gagnlegt að nota sambærilegar aðferðir til að endurskapa erfðamengi annarra einstaklinga frá þessum tíma, bæði á Íslandi og annars staðar, til að varpa ljósi á uppruna þeirra eða aðra eiginleika,“ er haft eftir Agnari í fréttatilkynningu.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar, segir sögu Hans Jónatans merkilega og uppörvandi.

„Hann var fyrsti svarti maðurinn til að stíga fæti á Ísland og virðist hafa verið tekið með opnum örmum af heimamönnum á Djúpavogi og nærsveitum. Þessi viðbrögð Íslendinga frá byrjun 19. aldar, sem voru einangraðir og alls ekki veraldarvanir, sýnir að kynþáttafordómar eru ekki meðfæddir,“ segir Kári.

Fjallað var um gerð heimildamyndar um Hans Jónatan í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í fyrra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert