Gervitunglið sem kemst í bakpoka

Það lætur ekki mikið yfir sér gervitunglið sem er til sýnis í Háskóla Íslands. Tækið sjálft er einungis 4 kíló að þyngd en safnar 5-6 terabætum af gögnum á degi hverjum en slík gagnasöfnun verður sífellt umfangsmeiri og það er hlutverk fólks að hanna algóritma til að lesa úr gögnunum.

mbl.is kíkti á gripinn og ræddi við Jón Atla Benediktsson, rektor skólans, en hann hefur mikinn áhuga á fjarkönnun af því tagi sem gervitunglið stundar. Gervitunglið er af gerðinni Dove sem fyrirtækið Planet Labs framleiðir og sendir á sporbaug. Alls er 291 tæki af sömu gerð á sporbaug umhverfis jörðina og 189 af þeim taka myndir daglega með öflugum sjónauka sem nýtast meðal annars við að greina breytingar á landslagi.

Tenging við Ísland 

Upplýsingar frá dúfunum eru sendar niður á jarðstöðvar á jörðu niðri. Á Ásbrú á Reykjanesi er stærsta stöðin af þessu tagi sem Planet Labs rekur en það er fyrirtækið ÍAV sem þjónustar stöðina og í myndskeiðinu fyrir ofan má sjá myndir af henni. 

Tunglinu er skotið á sporbaug með hefðbundnum eldflaugum og þeim komið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar og þaðan sett á sporbaug í 500 kílómetra hæð yfir jörðu. Það flýgur síðan á miklum hraða milli póla eða í norður-suður-stefnu yfir jörðinni sem snýst frá austri til vesturs. Það tekur dúfurnar einungis 90 mínútur að fara umhverfis jörðina og ná þær 16 umferðum á hverjum degi.    

Í myndskeiðinu fyrir neðan má sjá kynningu á starfi Planet Labs og hlutverki dúfnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert