„Fyrirtæki eru í meiri mæli að nota netmiðla“

Ljósmynd / Jóhönna Helga Þorkelsdóttir

Andri Már Kristinsson er ráðgjafi hjá Hugsmiðjunni þar sem hann sérhæfir sig í stefnumótun og markaðssetningu á vefnum. Við spurðum Andra um nýtt námskeið á vegum Hugsmiðjunnar í AdWords.

Andri er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur yfir 10 ára reynslu í markaðsmálum. Eftir þrjú ár í markaðsdeild Nýherja hóf Andri störf hjá Google sem sérfræðingur í auglýsingaþjónustu fyrirtækisins, Google AdWords.

Í kjölfarið gerðist hann framkvæmdastjóri vefmarkaðsfyrirtækisins Kansas sem varð hluti af markaðsstofunni Janúar árið 2014. Nú síðast starfaði Andri hjá Landsbankanum þar sem hann var ábyrgur fyrir vef-markaðssetningu bankans. Andri leiðir ásamt Margeiri Ingólfssyni nýtt teymi innan Hugsmiðjunnar sem mun veita þjónustu í markaðssetningu á netinu og stefnumótun í vef- og markaðsmálum.

„Markaðsmál snúast fyrst og fremst um notendaupplifun í stafrænum heimi,“ segir Andri og tekur undir með blaðamanni að grunnur hans nýtist vel í ráðgjöf til fyrirtækja, þar sem hann hefur upplifað að vera báðum megin við borðið, sem sérfræðingur í auglýsingaþjónustu Google og svo að kenna fyrirtækjum að nýta þjónustu Google AdWords til hins ýtrasta við herferðir.

Andri lýsir Google AdWords sem einum helsta auglýsingavettvangi Google. „Rúmlega 90% af tekjum Google fara í gegnum þessa auglýsingalausn, sem gefur til kynna hversu mikilvæg varan er fyrir fyrirtækið. Við erum annars vegar með kostaða leitarniðurstöður og vefauglýsingar.“

Kostaðar leitarniðurstöður og vefauglýsingar

„Kostaða leitarniðurstaðan virkar þannig að maður greiðir fyrir birtingar í leitarvél google, með því að maður býður í ákveðið leitarorð, og útbýr auglýsingu sem birtist þegar notandi Google leitar að leitarorðinu,“ segir Andri og tekur dæmi.

„Ef þú ert t.d. að selja skó á Íslandi og notandi á Google leitar eftir skóm getur þín auglýsing náð til notandans á mjög markvissan hátt. Þú hefur fulla stjórn á því hver sér auglýsinguna, getur stillt tungumál auglýsingarinnar á viðeigandi hátt og hægt er að nota fleiri viðbætur sem birtast ekki við lífrænar leitarniðurstöður.“

Getur þú tekið dæmi um slíkt?

„Já, sem dæmi: ef við höldum áfram með skóna, segjum að vænlegur viðskiptavinur sé að leita á símanum sínum, getur þú látið símanúmer birtast í auglýsingu sem auðveldar einstaklingnum að ná sambandi við þig.“

Vefauglýsingar, eða Google Display hlutinn, virka þannig að maður er með vefborða á hinum ýmsu vefsíðum líkt og Youtube, New York Times o.fl. Ef þú ert að reka fjölmiðil eins og New York Times getur þú skilgreint svæði sem geta farið inn í vefauglýsingahluta Google.

„Það sem gerist þá er að í hvert sinn sem viðskiptavinur skoðar síðu fer af stað uppboð, þar sem sá sem er tilbúinn að greiða mest fyrir skoðun notandans fær auglýsinguna.“

Andri segir að fyrirtæki sem eru tilbúin að fara þessa leið, nýti sér oft hina hefðbundnu miðla áfram, en setji svo auka pening í þessar leiðir til að ná í viðskiptavini sem eru móttækilegir fyrir vörunni.

Ljósmynd / Jóhanna Helga Þorkelsdóttir

Sneiðir framhjá þeim sem ekki eru í markhópnum

„Það fara minni peningar í birtingar, þar sem þú reynir að sneiða framhjá öllum þeim sem eiga ekki erindi sem markhópur fyrir vöruna þína á netinu.“

Facebook auglýsingarnar eru þekktar fyrir þessa virkni en Andri segir Google hafa komið fram á sjónarsviðið mun fyrr en Facebook með þessa tækni.

Hverjir eru helst að sækja AdWords námskeiðið hjá Hugsmiðjunni?

„Námskeiðið er hugsað fyrir alla sem vinna í markaðsmálum. Og tilgangur námskeiðsins er að gefa fólki innsýn inn í þessa vörld og fá því verkfærin sem það þarf til að byrja að nota Google AdWords í sínum fyrirtækjum,“ segir Andri og leggur áherslu á að mikilvægt sé að mæla árangur sem og kenna leiðir til að besta árangur herferðarinnar.

Andri er ekki frá því að mikil framför hafi verið á undanförnu ári á meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu og smásölu í notkun á stafrænni markaðsetningu. „Fyrirtæki eru í meiri mæli að nota netmiðla í markaðssetningu á skilvirkan hátt. Ferðaþjónustan, sem dæmi, er að keppa í alþjóðlegu umhverfi og hefur þurft að hlaupa hraðast á þessu sviði að mínu mati síðustu misserin. Sýnileiki á Google fyrir þessa aðila er gríðarlega mikilvægur.“

Næsta námskeið í Google AdWords verður í lok mánaðarins. „Námskeiðið er haldið í Hannesarholti og er það námskeið að fyllast. Þá tökum við inn á næsta námskeið sem verður haldið í febrúar og svo koll af kolli,“ segir Andri í lokin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert