Risamörgæs á stærð við mann

Á sundi var mörgæsin 1,77 metrar að lengd.
Á sundi var mörgæsin 1,77 metrar að lengd. Skjáskot/Senckenberg Research Institute

Steingervingar sem fundust á Nýja-Sjálandi sýna að þar þreifst fyrir um 56-60 milljónum ára mörgæs sem var á hæð við mann.

Í frétt AP-fréttastofunnar um málið segir að fuglinn hafi verið um 100 kíló og 1,77 metrar á lengd á sundi. Standandi á þurru landi var mörgæsin um 1,6 metrar að sögn vísindamanna. 

Steingervingurinn sýnir að uppi hafi verið stærri mörgæs en áður var talið. Þó er til brot úr lærbeini sem hefur þótt gefa vísbendingu um risavaxnar mörgæsir fortíðar.

Keisaramörgæsin er sú stærsta sem nú lifir á jörðinni. Hún er um 1,2 metrar á hæð. 

Sagt var frá steingervingafundinum og rannsóknum á honum í vísindatímaritinu Nature Communications í gær. Rannsakendurnir, sem starfa við háskóla í Frankfurt, kalla mörgæsina Kumimanu biceae, sem er vísun í orð sem Maóírar, frumbyggjar Nýja-Sjálands, nota um goðsagnakennt fljúgandi skrímsli.

Steingervingurinn er 56-60 milljóna ára gamall og er svipað gamall og elstu þekktu steingervingar mörgæsa. 

Risamörgæsirnar eru taldar hafa stækkað hratt eftir útdauða risaeðlanna fyrir um 66 milljónum ára. Fyrir þá atburði hafa mörgæsir, sem ekki gátu flogið, líklega átt erfitt uppdráttar og hafa verið auðveld bráð risaeðlanna. 

Vísindamennirnir telja hins vegar að hinar stóru mörgæsir hafi dáið út er samkeppni um búsvæði og veiðilendur í sjónum jókst með tilkomu stórra tannhvala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert