Póstþjónusta tekin í notkun í hádeginu

Svona lítur síða Samfylkingarinnar út en hún liggur niðri vegna …
Svona lítur síða Samfylkingarinnar út en hún liggur niðri vegna kerfishruns hjá fyrirtækinu 1984 ehf. Mynd/Skjáskot

Neyðartölvupóstþjónusta verður komin í gagnið hjá fyrirtækinu 1984 ehf. um hádegisbilið í dag en fyrirtækið varð fyrir algjöru kerfishruni í fyrradag. Póstnotendur fá aðgang að nýjum tölvupósti og tölvupósti sem borist hefur frá því að þjónustur stöðvuðust. Eldri póstur verður svo aðgengilegur þegar öll gögn hafa verið sett upp úr afritum.

„Við einbeitum okkur að því að tryggja hagsmuni viðskiptavina okkar. Þá snúum við okkur að því að skoða hvað gerðist,“ segir Mörður Ingólfsson, fram­kvæmda­stjóri 1984 ehf.

Mörður lýsti því í sam­tali við mbl.is í gær hvernig starfs­menn hefðu setið á fundi með helstu sér­fræðing­um lands­ins í þess­um mál­um og horft bara á vél­arn­ar deyja.

Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.
Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984 ehf.

„Núna erum við að taka póstþjónustuna í notkun, síðan mun eldri pósturinn detta inn í hólfin hjá fólki á næstu dögum,“ segir Mörður en hann segir að engin póst- eða vefgögn hjá fólki í vefhýsingu hafi farið í vaskinn.

„Við óttuðumst í gær að við myndum tapa gögnum úr VPS-þjónustunni (virtual per­sonal ser­ver). Það tap verður líklega lítið sem ekkert. Við höfum þróað aðferðir við að ná þeim út og við getum náð þeim öllum líklega, sem eru mjög góðar fréttir,“ segir Mörður.

Hann svarar því játandi þegar blaðamaður spyr hvort Mörður hafi lítið sofið í nótt. „Það er vægt til orða tekið. Við sofum ekki mikið núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert