„Rétt fyrir utan dyrnar hjá okkur“

Uppgötvunin var kynnt á blaðamannafundi í dag.
Uppgötvunin var kynnt á blaðamannafundi í dag. AFP

„Þetta þýðir það vonandi að við fáum meiri og betri tækni í þyngdarbylgjurannsóknir,“ segir Guðlaugur Jóhannesson, stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands og Nordita, í samtali við mbl.is. Hann og Páll Jak­obs­son voru meðal þátttakanda sem tóku þátt í að varpa nýju ljósi á upp­runa frum­efna eins og gulls og plat­ínu. 

Guðlaugur segir það lykilatriði að vísindamenn hafi í fyrsta skipti séð þyngdarbylgjur og ljósgeisla frá sama atburðinum. „Við höfum áður séð stutta gammablossa en út af þyngdarbylgjunum vitum við að þarna voru tvær nifteindastjörnur sem skullu saman,“ segir Guðlaugur. 

„Það voru kenningar um að samruni nifteindastjarna væri uppspretta stuttra gammablossa en þarna höfum við í fyrsta skipti fengið staðfestingu á því.

Stjörnu­fræðing­ar hafa í fyrsta sinn mælt ljós frá þyngd­ar­bylgjuat­b­urði en bylgj­urn­ar urðu til þegar tvær nifteinda­stjörn­ur rák­ust á hvor aðra í 130 millj­ón ljós­ára fjar­lægð frá jörðu.

Við samruna nifteinda­stjarn­anna mynduðust svo­kölluð kílónóvar; öfl­ug­ar spreng­ing­ar gamma­geisl­un­ar. Kílónóv­ur eru sýni­leg­ar glæður sem mynd­ast við samruna tveggja mjög þéttra fyr­ir­bæra.

Einstaklega mikilvægur atburður

Eins og kom fram fyrr í dag þeytast þungmálar út í geim við kílónóvu. Þar verða þeir að efnivið í myndun reikistjarna. Því virðist sem gull og fleiri málmar á jörðu hafi orðið til við árekstur nifteindastjarna fyrir milljörðum ára.

Í þessum kílónóvum fundust merki um frumefni, þyngri en járn. Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum mælt svona atburð þar sem við sjáum ummerki um að það sé verið að búa til gull í geimnum. Sjáum atburð þar sem gull og þyngri frumefni verða til. Þetta er einstaklega mikilvægur atburður,“ segir Guðlaugur en hann vonast til þess að þetta verði til þess að meira púður verði lagt í þyngdarbylgjurannsóknir í framtíðinni.

Hann segir að þrátt fyrir að þessir atburðir eigi sér stað langt í burtu frá okkur sé þetta ekki langt í hinu stóra samhengi. „Ef maður skoðar alheiminn í öllu sínu veldi þá er þetta sá gammablossi sem hefur mælst sem er hvað næst jörðinni. Í heimsfræðilegu sjónarhorni er þetta bara rétt fyrir utan dyrnar hjá okkur,“ segir Guðlaugur en hann bindur vonir við fleiri svona atburði.

„Það er til að við getum vitað hvort um einstakan atburð sé að ræða eða hvort þetta gildi um alla stutta gammablossa; að þeim fylgi kílónóva. Þetta er að opna nýjan glugga á alheiminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert