Hafa opnað nýjan glugga að alheiminum

Bylgjurnar urðu til þegar tvær nifteindastjörnur rákust á hvor aðra …
Bylgjurnar urðu til þegar tvær nifteindastjörnur rákust á hvor aðra í 130 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. AFP

Tveir íslenskir stjarneðlisfræðingar við Háskóla Íslands, Páll Jakobsson og Guðlaugur Jóhannesson, tóku þátt í því að varpa nýju ljósi á uppruna frumefna eins og gulls og platínu. Uppgötvunin er sögð boða byltingu í rannsóknum á alheiminum.

Fram kemur á Stjörnufræðivefnum að í fyrsta sinn hafi tekist að sameina hefðbundin stjarnvísandi, byggð á rafsegulgeislun, og hin nýju þyngdarbylgjuvísindi. 

Stjörnufræðingar hafa í fyrsta sinn mælt ljós frá þyngdarbylgjuatburði en bylgjurnar urði til þegar tvær nifteindastjörnur rákust á hvor aðra í 130 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu.

Við samruna nifteindastjarnanna myndaðist svokölluð kílónóvar; öflugar sprengingar gammageislunar. Kílónóvur eru sýnilegar glæður sem myndast við samruna tveggja mjög þéttra fyrirbæra.

„Mælingar á þyngdarbylgjum eru ekki bara magnað tæknilegt afrek heldur hafa þær opnað nýjan glugga að alheiminum,“ segir Páll Jakobsson vegna málsins.

„Í fyrsta skipti verðum við vitni að samruna tveggja nifteindastjarna en ég býst við að fáir hafi ímyndunarafl til að gera sér í hugarlund þessi ofurþéttu fyrirbæri þar sem gjörvöll heimsbyggðin kæmist fyrir á svæði á stærð við tening! Mælingar á ljósi frá þessum samruna hafa síðan gefið okkur vísbendingar um hvernig þyngri efni í lotukerfinu, eins og gull og platína, hafa myndast í alheiminum,“ bætir Páll við.

Við kílónóvu þeytast þungmálar út í geim þar sem þeir verða að efnivið í myndun reikstjarna. Það virðist því vera að gull og fleiri málmar á jörðu hafi orðið til við árekstur nifteindastjarna fyrir milljörðum árum.

Hægt er að fylgjast með blaðamannafundi á vegum Evrópsku stjörnustöðvarinnar á suðurhveli (ESO) vegna málsins hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert