Nema ekki eigið mökunarkall

Brachycephalus ephippium er appelsínugulur smáfroskur.
Brachycephalus ephippium er appelsínugulur smáfroskur. CalPhotos/Diogo B. Provete

Vísindamenn hafa komist að því að tvær tegundir appelsínugulra smáfroska eru hættar að nema eigin mökunarköll. Um er að ræða einsdæmi í dýraríkinu að því best er vitað.

Alþjóðlegt teymi vísindamanna frá Brasilíu, Danmörku og Bretlandi hefur rannsakað mökunarkall Brachycephalus ephippium en svo virðist sem hvorki kven- né karldýrin nemi ástaróð karldýranna.

Dr. Sandra Goutte hjá Universidade Estadual de Campinas í Sao Paulo segir það hafa komið á óvart þegar froskdýrin sem hún hafði til rannsóknar svöruðu ekki mökunarkallinu, breyttu því ekki né veittu því athygli yfir höfuð.

Eftir vettvangsrannsóknir voru gerðar frekari athuganir á rannsóknarstofu, þar sem agnarsmáum elektróðum var komið fyrir við nasir froskdýranna og undir húðina við eyrað, til að mæla heyrn þeirra.

Í ljós kom að froskarnir heyra einfaldlega ekki kallið en þá vaknaði sú spurning hvers vegna karldýrin hafa haldið áfram að gefa það frá sér, ekki síst þar sem það kann að vera hættulegt til viðbótar við að vera gagnslaust, ef það laðar að rándýr.

Sem betur fer fyrir litlu appelsínugulu froskana eru þeir baneitraðir og eiga enga þekkta óvini í náttúrunni.

Goutte telur mögulegt að kallið þjóni þeim tilgangi að senda sjónrænt merki, þ.e. að gefa ástarumleitanirnar til kynna með því að láta hálsinn titra. Vitað er að froskarnir gefa frá sér önnur sjónræn merki og banda t.d. örmunum og gapa þegar þeim er ógnað.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert