Ólíklegt að iPhone X komi til landsins fyrir jól

Heimatakkinn er á bak og burt í nýjum iPhone X.
Heimatakkinn er á bak og burt í nýjum iPhone X. AFP

Ólíklegt þykir að iPhone X, nýjasti iPhone síminn sem kynntur var í gær, verði til í einhverju magni í verslunum hér á landi fyrir jól. Opnað verður fyrir forpöntun vestanhafs þann 27. október en undanfarin ár hefur verið opnað fyrir forpöntun í Evrópu viku síðar. 

Að því gefnu að opnað verði fyrir forpantanir á símanum í byrjun nóvember má telja ólíklegt að iPhone X verði kominn hingað til lands í einhverju magni að sögn Harðar Ágústssonar, eiganda Macland. Jafnan hafa nýjar útgáfur iPhone síma komið til landsins í takmörkuðu magni tveimur til þremur vikum eftir forpöntun en þó hefur allur gangur verið á því hversu snemma þeir berast í gegnum tíðina að sögn Harðar. Í ár mun Skakkiturn ehf., sem á og rekur Epli sjá um allan innflutning símanna, en ekki náðist í Guðna Eiríksson, framkvæmdastjóra Epli við vinnlslu fréttarinnar. 

iPhone X mun kosta frá 999 dollurum og má því gera ráð fyrir ódýrasta týpan af símanum komi til með að kosta um 160 þúsund krónur hér á landi. Símar með stærra geymsluplássi munu því líklega kosta yfir 180 þúsund krónur. 

Samhliða iPhone X mun Apple gefa út iPhone 8 og iPhone 8 Plus en gera má ráð fyrir að þeir komi til með að kosta 110 þúsund krónur og uppúr. 

Sjá frétt mbl.is: Nýr iPhone með andlitslesara

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert