Undralyf gegn krabbameini og hjartaáföllum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vísindamenn hafa þróað nýja tegund lyfja sem gætu komið í veg fyrir þúsundir hjartaáfalla og dauðsföll vegna krabbameins. Uppgötvun lyfjanna er sögð ein mikilvægasta uppgötvunin í lyfjavísindum frá því að statín, blóðfitulækkandi lyf, komu til sögunnar en lyfin hafa aðra virkni en hefðbundin lyfjameðferð.

Telegraph greinir frá.

Auk þess að draga úr hættu á hjartaáföllum um fjórðung, helminga lyfin jafnframt líkurnar á andláti vegna krabbameins og sporna gegn þvagsýru- og liðagigt. Segja vísindamenn tilkomu lyfjanna vera fyrirboða um „nýtt tímabil læknisfræðinnar“.

Milljónum fullorðinna sem eiga á hættu að fá hjartasjúkdóma vegna hás kólesteróls er nú ávísað blóðfitulækkandi lyfjum. Þrátt fyrir þetta er aðeins helmingur allra þeirra sem fá hjartaáfall með of hátt kólesteról, hinn helmingurinn ekki.

Bólgueyðandi lyf geti haft gríðarleg áhrif

Nú hafa vísindamenn komist að því að með því að draga úr bólgum í líkamanum megi efla varnir sjúklinga og með „ákaflega áhrifaríkum hætti“ draga úr dauðsföllum vegna krabbameins.

Lyfið canakinumab, sem gefið er með sprautu á þriggja mánaða fresti, dregur úr endurteknum hjartaáföllum um fjórðung. Blóðfitulækkandi lyf aftur á móti draga aðeins úr hættunni um 15%.

Segja sérfræðingar að uppgötvun lyfsins geti haft víðtæk áhrif á þá 200 þúsund Breta sem á ári hverju fá hjartaáfall. Óskað hefur verið eftir flýtimeðferð leyfisveitingar til að unnt sé að rannsaka frekar áhrif lyfsins á krabbameinssjúklinga.

þriðja bylgjan

Paul Ridker, prófessor við Harvard-háskóla, kynnti uppgötvunina á læknaráðstefnu í Barcelona í gær. Segir hann lyfið opna „þriðja vígið“ í stríðinu gegn hjartasjúkdómum.

Alls voru gerðar rannsóknir á tíu þúsund einstaklingum sem hafa fengið hjartaáfall en tilraunarannsókn fór fram á fjögurra ára tímabili. Leiddi hún í ljós að með lyfjagjöfinni dró úr fjölda endurtekinna hjartaáfalla um 24%. Þá fækkaði dauðsföllum vegna krabbameins um 51%.

„Á minni lífsleið hef ég orðið vitni af þremur stórum tímabilum í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma,“ sagði Ridker á ráðstefnunni. „Í þeirri fyrstu var mikilvægi mataræðis og hreyfingar og áhættan vegna reykinga viðurkennd. Í annarri bylgju sýndu blóðfitulækkandi lyf fram á mikilvægt gildi sitt. Núna erum við að brjótast inn í þriðja tímabilið,“ bætti hann við.

Kostar 5,4 milljónir á ári

Bólgur eru hluti af eðlilegum viðbrögðum líkamans við sýkingum eða áverkum en bólgur geta einnig ýtt undir hættuna á hjartaáföllum og heilablóðfalli. Þess vegna megi draga úr hættunni á slíkum áföllum með því að draga úr bólgum í líkamanum.

Nýja meðferðin er talsvert dýrari en hefðbundin lyfjagjöf blóðfitulækkandi lyfja en hún kostar á ársgrundvelli um 40 þúsund pund fyrir hvern sjúkling eða sem nemur um 5,4 milljónum íslenskra króna. Aftur á móti segja sérfræðingar að ná megi kostnaðinum niður því víðar sem lyfið er tekið í notkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert