Stór skref í átt að lækningu við kvefi

Engum finnst gaman að fá kvef og mögulega finnst lækning …
Engum finnst gaman að fá kvef og mögulega finnst lækning við því innan fárra ára. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vísindamenn telja að sameind sem hefur fundist í ónæmiskerfi manna og dýra gæti verið stórt skref í því að finna lækningu við almennu kvefi. Vísindamennirnir segja þróun í þessa átt „spennandi“.

Fjallað er um málið á vef Sky-fréttastofunnar í dag. Í fréttinni kemur fram að vísindamennirnir sem vinni að rannsókninni starfi við Napier háskólann í Edinborg. Þeir hafa uppgötvað mögulega nýja meðferð sem byggð er á örverudrepandi peptíðum (stuttum próteinum) sem fyrirfinnast frá náttúrunnar hendi í ónæmiskerfum og auka svörun líkamans við sýkingum. 

Rannsóknin hefur staðið yfir í fimm ár. Peptíðin sem um ræðir fyrirfinnast í ólíkum spendýrum og hafa öll þá eiginleika að geta barist gegn nasaveirum sem eru helsta orsök almenns kvefs í fólki.

Í tilraunum sem gerðar voru kom í ljós að peptíð, sem búin voru til á rannsóknarstofu, náðu að vinna á kvefveirunni. Á næsta stigi rannsóknarinnar munu vísindamennirnir finna leið til að breyta peptíðunum til að auka enn árangur þeirra í baráttunni við nasaveirurnar. 

Rannsóknin er enn stutt á veg komin en vísindamennirnir eru spenntir að sjá hvert hún mun leiða þá. „Lokatakmarkið er að þróa lyfjameðferð sem gæti mögulega læknað almennt kvef,“ hefur Sky eftir Peter Barlow, prófessor í ónæmisfræði sem tekur þátt í rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert