Gat í mesta lagið skokkað rösklega

Tölvulíkanið.
Tölvulíkanið. Mynd/University of Manchester

Nýjar rannsóknir benda til þess að stærð og þyngd grameðlunnar hafi gert það að verkum að hún komst ekki nema 20 km/klst. Niðurstöðurnar benda til þess að T. Rex sé bókstaflega ein skelfilegasta skepna sem GENGIÐ hefur á jörðinni.

Vísindamenn við Manchester-háskóla notuðu nýtt tölvulíkan til að meta hraða risaeðlunnar og þegar þeir horfðu eingöngu til ætlaðs vöðvamassa skilaði líkanið 30 km/klst. hámarkshraða. Hraðinn minnkaði niður í 20 km/klst. þegar beinabyggingin var tekin inn í myndina.

Komust fræðamennirnir að þeirri niðurstöðu að ef grameðlan hefði freistað þess að fara hraðar en ganga rösklega, hefðu fætur hennar brotnað undan líkamsþunganum.

„T. Rex er uppáhaldsrisaeðla allra og steingervingafræðingar hafa deilt um það í mörg ár hversu hratt hún gat farið, þar sem það segir okkur ýmislegt um veiðihegðun og hvernig hún fangaði bráð sína,“ segir prófessorinn William Sellers.

Hann segir rannsóknirnar benda til þess að eðlan hafi farið fremur hægt yfir og því ekki lagt í mikla eltingaleiki á eftir bráðinni.

Rannsóknir á fótsporum grameðlunnar höfðu áður gefið til kynna að hún væri ef til vill ekki jafn lipur og snör og ætla mætti af Hollywood-myndum. Bandaríski vísindamaðurinn Eric Snively segir hana engu að að síður hafa verið virkilega ógnvekjandi.

Hann segir hámarkshraða eðlunnar þrátt fyrir allt meiri en hraða flestra hlaupara og vísar til þekkts atriðis í frægustu risaeðlumynd allra tíma.

„[Eðlan] hefði mjög líklega náð Jeff Goldblum í Jurassic Park ef hann hefði ekki verið í jeppanum og þess í stað í sleipri leðjunni.“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert