Fylgjast með reki risajakans

Sprunga myndaðist í Larsen C-íshellunni og risavaxinn jaki brotnaði frá.
Sprunga myndaðist í Larsen C-íshellunni og risavaxinn jaki brotnaði frá. AFP

Hinn risavaxni ísjaki, A-68, sem brotnaði af íshellu sem umlykur Suðurskautslandið í síðustu viku, heldur áfram að reka út á haf. Jakinn er sá einn sá stærsti sem sést hefur eða um 6000 ferkílómetrar að stærð. 

Fylgst er með reki jakans með gervitunglum og á nýjustu myndunum má sjá að fjarlægðin milli hans og Larsen C-íshellunnar, þaðan sem hann brotnaði, er að aukast.

Í frétt BBC um málið kemur fram að erfitt sé að mynda á svæðinu á þessum tíma árs þar sem næturmyrkrið varir lengi og skýjahula liggur yfir. Gervitunglin sem fylgjast með reki jakans styðjast m.a. við radar og innrauða geisla.

Vísindamenn segja að rekið sé enn eins og spáð hafði verið. Í fyrstu er því spáð að jakinn haldi sig við jaðar Suðurskautslandsins. 

Nú er ljóst að stórir ísjakar hafa brotnað frá A-68. Sá ís er þynnri en jakinn sjálfur sem er allt að 200 metra þykkur.

Margir vísindamenn fylgjast með reki A-68 af miklum áhuga. Þeirra á meðal er Thomas Rackow hjá Alfred Wegener-stofnuninni. Stofnunin gaf nýverið út líkan af reki ísjaka um höf Suðurskautslandsins og notuðu við gerð þess hafstrauma og ríkjandi vindáttir og hvernig þetta tvennt hefur áhrif á stóra sem smáa hluti í hafinu. Niðurstaða þeirra var sú að jakar færu aðallega fjórar „hraðbrautir“, allt eftir því hvaðan þeir losna frá íshellunni.

Samkvæmt líkaninu ætti A-68 að reka upp austurströnd Suðurskautslandsins, úr Weddell-hafi og út í Atlantshafið.

Ísjakinn taldi um 10% af Larsen C-íshellunni og vísindamenn munu einnig fylgjast með áhrifum þessara breytinga á íshelluna sjálfa. Í íshellunni eru t.d. sprungur sem hafa verið nokkuð stöðugar og er haldið saman af mjúkum ís. Nú er fylgst sérstaklega vel með sprungunum og hvort brotthvarf jakans hafi áhrif á þær. 

Þá eru vísindamenn spenntir fyrir því að skoða hafsbotninn sem var undir jakanum. Mögulegt er að þar finnist áður óþekktar lífverur.

Frétt BBC.

Á myndinni má sjá hvernig staðan var snemma í júní …
Á myndinni má sjá hvernig staðan var snemma í júní og hvernig hún var í lok mánaðarins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert