Áratugur snjallsímans

Steve Jobs sviptir hulunni af iPhone-símanum árið 2007.
Steve Jobs sviptir hulunni af iPhone-símanum árið 2007. AFP

Hinn 29. júní 2007 mynduðust langar raðir fyrir utan verslanir Apple-tölvurisans víðsvegar um Bandaríkin. Sumir höfðu með sér svefnpoka, aðrir regnhlífar eða útilegustóla, þúsundir viðskiptavina biðu tímunum saman eftir að verða fyrstar til að kaupa glænýjan iPhone-snjallsíma. Æði hafði gripið um sig sex mánuðum fyrr þegar Steve Jobs, forstjóri Apple-samsteypunnar, tilkynnti áætlun fyrirtækisins að gefa út sinn fyrsta síma. Draumóramaðurinn Jobs hefði tæplega getað séð fyrir hversu gríðarlega vinsæll iPhone-síminn ætti eftir að verða, eða afleiðingar snjallsímabyltingarinnar sem hann hrinti af stað.

Síminn sem breytti heiminum

Tíu árum eftir að iPhone-síminn sprengdi sig inn á markaðinn hefur hann orðið að einni vinsælustu vöru í sögunni. Hátt í 1,2 milljarðar eintaka hafa verið seldir á heimsvísu og hefur síminn gert Apple að einu verðmætasta fyrirtæki heims. Snjallsíminn hefur umbylt atvinnugreinum allt frá tónlist til hótelreksturs, ásamt því að gjörbreyta hvernig við höfum samskipti við fólkið og heiminn í kringum okkur.

Snertiskjáir og stýrikerfi

Augljósasta nýjung iPhone-símans var snertiskjárinn, en þótt snertiskjáir hefðu verið til í rúma fjóra áratugi og að IBM hefði byrjað að framleiða síma með snertiskjá 15 árum fyrr, hafði engu fyrirtæki tekist að framleiða síma með eins vel heppnuðum og notendavænum snertiskjá fyrr en Apple gaf út iPhone-símann. Það var þó ekki snertiskjárinn sjálfur sem gaf iPhone-símanum forskot, heldur var það stýrikerfið iOS eða iPhone OS eins og það hét í fyrstu, en stýrikerfið er ein helsta ástæðan fyrir vinsældum iPhone-símans.

iPhone-farsími við hlið Apple-merkisins í borginni Lille.
iPhone-farsími við hlið Apple-merkisins í borginni Lille. AFP

Smáforritin breyttu öllu

Þrátt fyrir mikinn áhuga dyggra viðskiptavina Apple á iPhone-símanum seldist síminn ekki eins vel og búist var við á fyrstu mánuðunum. Það var ekki fyrr en Apple kynnti til leiks App Store, dreifingarþjónustu fyrir smáforrit, sem áhugi fjárfesta vaknaði og sala á snjallsímanum stórjókst. Fyrirtækið opnaði símann fyrir utanaðkomandi smáforritaframleiðendum árið 2008 svo smáforritum fjölgaði mjög, fljótlega var til smáforrit fyrir nánast allt á milli himins og jarðar.

Snjallsímabyltingin

Apple var ekki lengi eini tæknirisinn á snjallsímamarkaðinum, heldur slóst Google í hópinn með Android- stýrikerfið í fararbroddi aðeins ári eftir að iPhone-síminn kom í verslanir. Í september 2008 gaf Google út fyrsta snjallsímann með Android- stýrikerfi í samstarfi við kínverska símaframleiðandanum HTC, en árið 2010 hóf Google samstarf við fleiri framleiðendur á borð við Samsung og Huawei.

Í dag er meira en milljarður snjallsíma í notkun um allan heim, sem tengir notendur þeirra við umheiminn á hátt sem aldrei hefur áður sést. Allt frá Kanada til Kenía eru snjallsímanotendur sítengdir við nær óendanlegan gagnagrunn upplýsinga, sem hefur gjörbreytt venjum og samskiptum fólks og óneitanlega bætt líf fjölmargra notenda.

Engu að síður getur sítenging snjallsímanna verið varasöm, sérstaklega við akstur ökutækja. Samkvæmt skýrslu Samgöngustofu um aksturshegðun hafa ríflega 40% aðspurðra á aldrinum 18-34 ára notað farsíma til að skoða samfélagsmiðla við akstur. Einnig hafa vandamál tengd símafíkn aukist, en samkvæmt rannsókn Deloitte lítur manneskja í Bandaríkjunum á aldrinum 18-24 ára að meðaltali 74 sinnum á símann sinn á degi hverjum.

Afmælisútgáfa iPhone

Í tilefni afmælisins mun Apple gefa út afmælisútgáfu af snjallsímanum á árinu, en síminn mun að öllum líkindum heita iPhone 8.

Fyrirtækið hefur ekki staðfest útgáfudag en líklegt er að síminn komi út í september. Dulúð liggur yfir smáatriðum símans, en orðrómur innan tæknigeirans hermir meðal annars að „home“-takkinn fái að fjúka, hægt verði að opna símann með andlitsgreiningu og myndavélin verði betri en nokkru sinni fyrr. Auk þess mun Apple afhjúpa nýja iOS 11-stýrikerfið í haust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert