Mun kaffið smakkast verr?

Verður kaffi lúxusvara í framtíðinni?
Verður kaffi lúxusvara í framtíðinni? AFP

Bragð kaffidrykkja gæti spillst og verð þeirra hækkað vegna loftslagsbreytinga sem eru að eiga sér stað í heiminum og ekki sér fyrir endann á. Hlýnun jarðar er að verða til þess að kjörlendi til kaffibaunaræktunar minnkar, að mati vísindamanna.

Í nýrri rannsókn sem birt var í Nature Plants í vikunni kemur fram að mikil ógn steðji að kaffibaunaræktun í Eþíópíu, stærsta kaffiframleiðanda Afríku, verði ekkert að gert. Ræktun kaffibauna í Eþíópíu á sér langa sögu og þaðan á hágæða arabíska kaffibaunin bókstaflega rætur sínar að rekja. 

„Í Eþíópíu og alls staðar annars staðar í heiminum reyndar, ef við gerum ekkert þá verður framleitt minna kaffi, það mun smakkast verr og kosta meira,“ segir Aaron Davis, vísindamaður við bresku Kew-stofunina og einn af höfundum rannsóknarinnar.

Í fréttaskýringu um málið á vef BBC kemur fram að kaffineysla hafi tvöfaldast í heiminum á síðustu 35 árum. Ræktun kaffibauna er viðkvæm fyrir veðurfarsbreytingum. Því er það mat vísindamanna að hentugt land til ræktunar baunanna muni minnka umtalsvert næstu áratugina, verði ekki brugðist við.

Svo mikil er kaffidrykkja í heiminum að ekki er framleitt nægilegt magn kaffibauna árlega til að anna henni. Hins vegar hafa birgðir sem safnast hafa upp síðustu ár bjargað málunum svo kaffiskortur hefur ekki gert vart við sig og verðið því ekki rokið upp.

En að lokum munu þessar birgðir klárast og þá vandast málið, sérstaklega í ljósi þess að mögulega mun draga úr framleiðslunni vegna loftslagsbreytinga í nánustu framtíð.

Þá er óttast að uppskerubrestir geti orðið vegna þurrka eða flóða, sem einnig má tengja við loftslagsbreytingar, m.a. í Víetnam og Brasilíu, stærstu kaffiframleiðendum heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert