Vélmennið „Robocop“ verður að veruleika

Vélmennið hefur hlotið viðurnefnið Robocop. Nafnið er tilvitnun í bandarísku …
Vélmennið hefur hlotið viðurnefnið Robocop. Nafnið er tilvitnun í bandarísku myndina Robocop sem sló í gegn árið 1987. Mynd/Wikipedia

Heimsins fyrsta lögregluvélmenni gekk í lögreglulið Dubai-borgar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum síðasta sunnudag. Þetta kemur fram á vef Arabian Business

Lögregluþjónninn hefur fengið viðurnefnið „Robocop“. Nafnið er tilvitnun í bandarísku hasarmyndina Robocop sem fjallar um stálbrynjað lögregluvélmenni. 

„Markmið vélmennisins er að aðstoða og hjálpa fólki. Það er hannað til að verjast glæpum, halda borgurum öruggum og bæta hamingju þeirra,“ segir stórfylkisforinginn Khalid Al-Razooqi, formaður snjalltæknideildar lögreglu Dubai, á árlegri sýningu um upplýsingaöryggi við Persaflóa (GISEC).

Vélmennið er búið greini sem tilgreinir handahreyfingar og látbragð. Það getur einnig greint svipbrigði og tilfinningar fólks, hvort sem einstaklingur er glaður eða leiður. Vélmennið breytir svo sínum eigin svipbrigðum og tilsvörum á viðeigandi hátt.

Vélmennið er 170 sentímetrar, vegur 100 kílógrömm og er búið afar næmri myndavél. Það er klætt hefðbundnum dökkgrænum lögregluhatti merktum Dubai-lögreglunni.

Vélræni lögregluþjónninn getur skilið og sagt arabíska og enska frasa. Hann mun styðja lögreglu Dubai með því að vakta og fylgjast með verslunarmiðstöðvum, götum og umferð um alla borg. Fólk mun geta tilkynnt fjöltyngda vélmenninu um glæpi með notkun snertiskjás á bringu þess. Það getur einnig borgað umferðarsektir og skilað inn ýmsum skjölum á sama hátt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert