Verða að átta sig á alvarleika málsins

Forsvarsmenn Microsoft eru ómyrkir í máli og segja að stjórnvöld …
Forsvarsmenn Microsoft eru ómyrkir í máli og segja að stjórnvöld um allan heim verði að uppfæra tölvubúnað reglulega, því annars eigi menn á hættu að verða tölvuþrjótum að bráð. AFP

Stjórnvöld verða að átta sig á alvarleika málsins varðandi þær tölvuárásir sem voru gerðar á 150 ríki á föstudag. Þetta segja forsvarsmenn tæknifyrirtækisins Microsoft. Þeir segja enn fremur, að gríðarlegt tjón hafi orðið vegna veikleika sem er að finna í tölvuhugbúnaði hjá opinberum stofnunum.

Nýjasta tölvuveiran nýtir sér þekktan galla í Windows-stýrikerfi Microsoft sem bandaríska leyniþjónustan hafði fundið.

Menn óttast frekari árásir, eða svokallaða gagnagíslatöku, þegar fólk mætir til vinnu í fyrramálið, að því er segir í frétt á vef BBC.

Tölvuveiran hefur sýkt yfir 200.000 tölvur. Sérfræðingar óttast að fleiri …
Tölvuveiran hefur sýkt yfir 200.000 tölvur. Sérfræðingar óttast að fleiri tölvur eigi eftir að sýkjast og fleiri eigi þar af leiðandi eftir að glata mikilvægum gögnum. AFP

Mörg fyrirtæki hafa kallað inn tölvusérfræðinga til vinnu yfir helgina til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu tölvuóværunnar. Tölvuveiran tekur yfir gögn notenda og tölvuþrjótar krefjast þess að fólk greiði lausnargjald svo fólk geti fengið gögnin til baka.

Það hægði töluvert á útbreiðslu veirunnar um helgina, en sérfræðingar óttast að útbreiðslan muni aftur taka kipp. Búið er að sýkja um 200.000 tölvur hingað til.

Microsoft sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fyrirtækið gagnrýnir það hvernig stjórnvöld geymi upplýsingar um öryggisgalla í tölvukerfum.

„Við höfum séð veikleika sem CIA [bandaríska leyniþjónustan] hafði upplýsingar um birtast á WikiLeaks, og nú hefur þessi veikleiki [sem fannst í Windows-stýrikerfinu] sem var stolið frá NSA [Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna] haft áhrif á viðskiptavini um allan heim.“

Microsoft segir að þetta sé ekki ósvipað því að einhver hefði stolið Tomahawk-flugskeytum frá Bandaríkjaher.

Hvað gerist á morgun?
Hvað gerist á morgun? AFP

Microsoft segir enn fremur, að stjórnvöld um allan heim verði að átta sig á alvarleika málsins.

Fyrirtækið sendi frá sér öryggisuppfærslu í mars sem var ætlað að takast á við þann vanda sem nýjasta tölvuveiran myndi skapa, en margir notendur hafa hins vegar ekki sótt og nýtt sér nýjustu uppfærslur.

„Þar sem tölvuþrjótar verða sífellt færari, þá er einfaldlega engin leið fyrir viðskiptavini að verja sig gegn slíkum ógnum nema þeir uppfæri kerfin sín,“ segir Microsoft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert