Mánudagur verði smelllaus

AFP

Yfirmaður tölvuöryggismála hjá embætti ríkislögreglustjóra Danmerkur hvetur Dani til þess að hvíla smellina þegar mæta til vinnu á morgun. Ótrúlegt sé að ekki hafi borist upplýsingar um dönsk fyrirtæki sem eru fórnarlömb tölvuárásar sem nær til 200 þúsund notenda í 150 löndum.

Rætt er við Kim Aarenstrup, yfirmanns tölvuglæpadeildar ríkislögreglustjóra, í Politiken. Í gær var ekki vitað til þess að árásin hefði náð til Íslands, samkvæmt forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar. Ekki hefur náðst í Hrafnkel V. Gíslason í morgun. 

Aarenstrup segir að það geti hafa bjargað miklu í Danmörku að föstudagurinn, þegar árásirnar hófust, var almennur frídagur í Danmörku. Allir þeir sem eru með Microsoft í tölvum sínum og hafa ekki uppfært eiga á hættu að verða fórnarlömb tölvuhakkara. 

„Kannski er þetta lognið fyrir storminn en við skulum vona að fólk og fyrirtæki hafi áttað sig á því að það á ekki að smella á hlekki sem birtast á skjánum umhugsunarlaust,“ segir hann í viðtali við Politiken. 

Kim Aarenstrup segir að tölvudeildir fyrirtækja hafi haft í nægu að snúast um helgina en þær hafi andrými til mánudagsmorguns. „Ég mæli eindregið með því að Danir sleppi því að smella póst sem lítur grunsamlega út þegar þeir mæta í vinnu á mánudagsmorgun,“ segir Kim Aarenstrup og bætir við að hann ráðleggi fólki að hætta því yfir höfuð að smella á pósta hvort heldur sem þeir eru grunsamlegir eður ei. Því það geti reynst þrautin þyngri að vita hvað er hvað. „Ef mánudagurinn verður smelllaus þá geta hakkararnir ekki haldið starfi sínu áfram.“

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert