Ráðlögðu foreldrum að bíða með bólusetningar

Allvis heilsugæslustöðin í Södermalm -hverfinu í Stokkhólmi.
Allvis heilsugæslustöðin í Södermalm -hverfinu í Stokkhólmi. Af vef Allvis

Starfsfólk Allvis-læknastöðvarinnar í Södermalm er sakað um að hafa mælt með því á fræðslufundum með nýbökuðum foreldrum að það væri góð hugmynd að bíða með bólusetningar barna gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum þar sem sjúkdómarnir hefðu jákvæð áhrif á þroska barnanna.

Anna Starbrink, sem fer með málefni heilsugæslunnar og sjúkrahúsa í borgarráði Stokkhólms, segir það algjörlega óásættanlegt að læknastofur séu starfandi í borginni sem ekki uppfylla mælikvarða yfirvalda. Á einhverjum heilsugæslustöðvum er alls ekki nægjanlega hátt hlutfall barna sem eru bólusett en það er ekkert í líkingu við það sem við erum að sjá í þessari í Södermalm segir hún í viðtali við Dagens Nyheter.

Börn eru bólusett gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum frá 18 mánaða aldri í Svíþjóð. Af börnum sem fædd eru árið 2014 eru 95,6% þeirra bólusett gegn þessum sjúkdómum en hjá Allvis er hlutfallið 44,2%.

Samkvæmt frétt Dagens Nyheter (DN) mælir Allvis eins með því að foreldrar gefi börnum sínum hómópata-meðul. Þegar faðir spurði starfsfólk hvort það gæti verið gott fyrir börn að fá mislinga var honum sagt að á Vesturlöndum dæju börn ekki úr barnasjúkdómum.

Starbrink segir þetta kolrangt og hið rétta sé að undanfarin ár hafi þónokkur börn veikst alvarlega af mislingum og kíghósta í Svíþjóð. Segir í fréttinni að svo geti farið að læknastofan missi starfsleyfi sitt en ákveðið hafi verið að hefja rannsókn á starfsemi hennar.

„Ef þú ætlar að reka læknastofu fyrir börn á vegum borgaryfirvalda í Stokkhólmi þá verður þú að fylgja viðmiðunarreglum okkar. Ef þú gerir það ekki getur það bundið enda á samkomulag um rekstur,“ segir Starbrink.

Á vef Embættis landlæknis segir um mislinga:

Mislingar er veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Hann getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.

Mislingar voru algengur sjúkdómur á meðal barna hér á árum áður. En eftir að farið var að bólusetja gegn honum hefur dregið mjög úr algengi hans í hinum vestræna heimi. Alla jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.
Mislingafaraldur kom upp í Evrópu á árinu 2011 og 2012 og greindust um 30 þúsund einstaklingar með mislinga hvort árið. Flestir þeirra sem veiktust voru í Frakklandi, Ítalíu, Rúmeníu, Spáni og á Bretlandseyjum og voru óbólusettir. Margir þeirra sem sýktust dóu og aðrir hlutu alvarlega fylgikvilla.

Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert