Flaug í Iron Man-búningnum

Richard Browning kynnti flugbúninginn sinn á TED-ráðstefnunni í Kanada í …
Richard Browning kynnti flugbúninginn sinn á TED-ráðstefnunni í Kanada í gær. AFP

Breskur uppfinningamaður, sem hefur búið til flugbúning að hætti Járnmannsins (e. Iron Man) flaug fyrir gesti TED-ráðstefnunnar í Vancouver.

Flug Richards Browning átti sér stað fyrir utan ráðstefnuhúsið frammi fyrir miklum fjölda áhorfenda.

Jómfrúarflug Browning í búningnum fór fram í Bretlandi fyrir nokkru og síðan þá hefur uppfinning hans vakið mikla athygli. Browning segir að flugið í búningnum sé skemmtilegt en á ekki von á því að hægt verði að nýta það til samgangna í nánustu framtíð.

Richard Browning tekur á loft fyrir utan ráðstefnuhúsið í Vancouver.
Richard Browning tekur á loft fyrir utan ráðstefnuhúsið í Vancouver. AFP

Hann segist hafa fengið innblástur sinn frá föður sínum sem er verkfræðingur og uppfinningamaður. Faðir hans svipti sig lífi er Browning var unglingur.

Browning segir í samtali við BBC að hann hafi mikla ástríðu fyrir því að finna upp nýja hluti og njóti áskorunarinnar. Hann segist hafa ráðist í gerð búningsins til að njóta alls ferlisins. Þá segir hann flug manna alltaf hafa heillað hann.

Búningurinn sem Browning þróaði og gerði samanstendur af sex litlum þotuhreyflum og sérstaklega hönnuðum varnarbúningi. Í hjálminum getur hann fylgst með eldsneytiseyðslu og fleiru. Browning segir að hægt sé að fljúga í búningnum á allt að 321 kílómetra hraða á klukkustund og í nokkur þúsund metra hæð. En af öryggisástæðum heldur hann sig nær jörðu og á minni hraða. 

Browning segir að flugbúningurinn sé ekki hættulegur. „Hann er öruggari en mótorhjól.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert