Hjólað í vinnuna helmingar sjúkdóma

mbl.is/Eggert

Viltu lifa lengur, minnka hættuna á krabbameini og hjartasjúkdómum? „Hjólaðu þá í vinnuna,“ segja vísindamenn við háskólann í Glasgow sem tóku þátt í umfangsmestu rannsókn á kostum og göllum hjólreiða.

Meðal niðurstaðna var að það myndi helminga hættuna á krabbameini og hjartasjúkdómum að hjóla til og frá vinnu. Kostur hjólreiða væri sá – ólíkt því að fara í ræktina – að það þyrfti engan viljastyrk til að sveifla sér á bak reiðhjóli eftir að hjólreiðar væru orðnar rútína.

Rannsóknin stóð í fimm ár og tóku þátt í henni 250.000 manns sem dags daglega ferðuðust milli heimilis og vinnu. Þótti líka sýnt að af því væri batnaður að ganga frekar en ferðast með almenningssamgöngum eða bíl.

Alls dóu 2.430 þátttakenda, 3.748 greindust með krabbamein og 1.110 voru með hjartagalla. Á rannsóknartímanum reyndust reglubundnar hjólreiðar til og frá vinnu minnka hættuna á andláti af hvaða ástæðu sem væri um 41%, af völdum krabba um 45% og hjartagalla 46% .

Hjólamennirnir lögðu að baki 50 kílómetra á viku að meðaltali en því lengra sem þeir hjóluðu því meiri heilsufarslegur ávinningur. Ganga dró líka úr líkum á hjartveiki en þó aðallega hjá fólki sem gekk lengra en 10 kílómetra á viku.

Jason Gill, einn af forstöðumönnum rannsóknar University of Glasgow, segir klárlega komið í ljós, að fólk sem hreyfir sig líkamlega á leið úr og í vinnu, sérstaklega þeir sem hjóla, eru í minni hættu á að verða krabbameini og hjartabilun að bráð. Fjallað er um rannsóknirnar í nýjasta hefti breska læknaritsins British Medical Journal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert