Hægt að lesa í hreyfingar fólks

AFP

Hreyfiskynjarar í snjallsímum geta gert glæpamönnum kleift að stela bankaupplýsingum og lykilorðum samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem fjallað er um á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þar segir að sérfræðingar telji að þetta sé hægt einfaldlega út frá upplýsingum sem skynjararnir nema um það hvernig síminn er notaður.

Rannsóknin var gerð við Newcastle-háskóla í Bretlandi. Hreyfingar síma voru rannsakaðar á meðan þeir voru notaðir og tókst með því að greina fjögurra stafa lykilorð í fyrstu tilraun með 70% nákvæmni og 100% nákvæmni í fimmtu tilraun.

Einnig tókst að nota hreyfiskynjarana til þess að greina hvaða hluta vefsíðna notandi væri að skoða, hvaða tengla hann smellti á og hvað hann skrifaði út frá notkun hans á hreyfiskynjurum eins og þegar smellt var eða skrunað.

Fram kemur í fréttinni að framleiðendur snjallsíma séu meðvitaðir um vandamálið en að lausn hafi ekki fundist. Hluti skýringarinnar er sú að ekki er fyrir hendi samræming á fyrirkomulagi hreyfiskynjara í snjallsímum innan farsímageirans. 

Haft er eftir dr. Maryam Mehrnezhad, sem fór fyrir rannsókninni, að fjöldi hreyfiskynjara væri á snjallsímum og öðrum snjalltækjum og þar sem smáforrit þyrftu ekki leyfi til þess að nota skynjarana væri hægt að koma fyrir njósnaforritum sem nýttu sér þá til þess að safna miklu af viðkvæmum upplýsingum um notendur. Þar á meðal lykilorð.

Fram kemur að rannsóknarteymið hafi haft samband við fyrirtæki eins og Google og Apple í kjölfar niðurstöðu rannsóknarinnar og varað þau við þessari hættu en enginn hafi enn sem komið er fundið lausn á vandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert