Næringargildi mannsins heldur rýrt

66 kg karlmaður telur aðeins 144.000 kaloríur.
66 kg karlmaður telur aðeins 144.000 kaloríur. Wikipedia

Mannát meðal forsögulegra manna átti sér líklegar félagslegar orsakir en næringafræðilegar, ef marka má nýja rannsókn. Rannsóknin miðaði m.a. að því að reikna út næringargildi mannslíkamans, sem er minna en margur hefði haldið.

Ummerki um mannát hafa fundist á fjölda forsögulegra staða, s.s. í Frakklandi, Belgíu og á Spáni, en meðal þeirra má nefna tannaför og brotin bein. Þau þykja benda til þess að forfeður nútímamannsins, auk annarra tegunda af ættkvísl manna, hafi lagt sér mannakjöt til munns, a.m.k. endrum og eins.

James Cole, sérfræðingur í þróun mannsins við University of Brighton, reiknaði út næringargildi 66 kg karlmanns og komst að því að það er heldur rýrt; allur telur líkaminn 144.000 kaloríur, þar af er 32.000 að finna í beinagrindarvöðvum mannslíkamans, 376 kaloríur í nýrunum og 128 í einu milta.

Fjöldi annarra dýrategunda, hverra sundurskornar leifar hafa fundist á hinum forsögulegu stöðum, er mun næringarríkari. Cole telur beinagrindarvöðva mammútsins hafa talið 3,6 milljónir kaloría, svo dæmi séu tekin.

„Þetta bendir til þess að við séum ekki sérlega næringarrík,“ segir Cole en niðurstöður hans hafa birst í Scientific Reports. „Við erum raunar frekar lítið dýr og höfum ekki mikið hold eða fitu á okkur og höfðum ekki endilega í fortíðinni heldur.“

Cole bendir á að þrátt fyrir að ættkvíslin maður hafi lagt sér önnur smá dýr til munns, á borð við fugla og héra, hefði reynst mun erfiðara að „veiða“ menn, þar sem þeir hefðu getað barist, hlaupið og beitt skynseminni til að komast undan.

Hann segist ekki útiloka að mannát hafi í einhverum tilvikum verið stundað næringarinnar vegna en segir ástæðurnar kunna að hafa verið fleiri.

Cole segir mögulegt að um tækifærismennsku hafi verið að ræða; mannát hafi verið stundað þegar einhver lést af náttúrulegum orsökum, nú eða í kjölfar yfirráðaátaka.

Aðrir sérfræðingar hafa fagnað niðurstöðum Cole.

„Var mannát stundað sem útfararsiður eða var þetta spurning um að borða það sem féll til?“ spyr Silvia Bello við Natural History Museum í Lundúnum. „Ég er ekki viss um að ummerkin hjálpi okkur til að komast að annarri hvorri niðurstöðunni.“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert