Einn milljarður jarðarbúa reykir

AFP

Eitt af hverjum tíu dauðsföllum í heiminum má rekja til reykinga. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Helmingur þeirra sem látast af völdum reykinga búa í fjórum ríkjum: Kína, Indlandi, Bandaríkjunum og Rússlandi. Fjallað er um rannsóknina á BBC en hún er birt í The Lancet.

Undanfarna áratugi hefur verið barist gegn reykingum en þrátt fyrir það hefur reykingamönnum fjölgað í heiminum. Óttast er að reykingafólki eigi enn eftir að fjölga vegna mikillar markaðssetningar tóbaksfyrirtækja í þróunarlöndunum.

Einn af höfundum skýrslunnar, Emmanuela Gakidou, segir í viðtali við BBC að þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á hræðilegar afleiðingar reykinga á heilsu fólks þá reykir einn af hverjum fjórum körlum í heiminum daglega.

Reykingar eru annar stærsti áhættuþátturinn þegar kemur að heilsu fólks en rannsóknin nær til 195 landa og er gerð á tímabilinu 1990 til 2015. Samkvæmt henni reykir einn milljarður jarðarbúa daglega. Árið 2015 voru það einn af hverjum fjórum körlum og ein af hverjum 20 konum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert