Allir sjúklingarnir látnir

Ljósmynd frá barkaígræðslunni.
Ljósmynd frá barkaígræðslunni. Karolinska Institut

Allir þrír sjúklingarnir sem ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini gerði plastbarkaaðgerð á á Karolinska sjúkrahúsinu eru látnir.

Yesim Cetir, 26 ára, lést á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum en hún hefur dvalið á sjúkrahúsi allt frá því hún yfirgaf heimalandið, Tyrkland, árið 2012 til þess að fara í aðgerðina. Faðir hennar greinir frá andláti hennar á Facebook, segir í frétt sænska ríkisútvarpsins.

Yesim Cetir hefði orðið 27 ára 15. apríl næstkomandi. Hún varð fimmti sjúklingurinn sem Paolo Macciarinis gerði plastbarkaaðgerð á í heiminum. Sumarið 2012 gerði hún hlé á háskólanámi í Tyrklandi til þess að fara í aðgerðina hjá færasta skurðlækni heims. Síðan hefur hún dvalið á sjúkrahúsi, fyrst í Svíþjóð og síðar Bandaríkjunum.

Yesim Cetir fór í aðgerð í Istanbul vegna þess hvað hún svitnaði mikið á höndum. Mistök voru gerð við aðgerðina og barki hennar skemmdur alvarlega. Þar sem hún þurfti á nýjum barka að halda var hún send í aðgerð hjá færasta lækninum á þessu sviði, Macchiarini, sem ætlaði veita henni nýja líflínu með plastbarka. 

Macchiarini gerði slíka aðgerð fyrst í júní 2011 en það var krabbameinssjúklingurinn Andemariam Beyene sem var búsettur hér á landi. Líkt og kom fram í fjölmiðlum var talið að aðgerðin hefði heppnast fullkomlega en síðar átti annað eftir að koma á daginn.

Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini.
Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini.

Barkaþeginn, Andemariam Teklesenbet Beyene, er 36 ára Erítreubúi. Sama haust og hann kom til landsins árið 2009 greindist hann með krabbamein í barka, en það leiddi til þess að hann byrjaði í meðferð hjá Tómasi Guðbjartssyni.

Nákvæmt plastmót var gert af barka Andemariams og var aðgerðin samhliða undirbúin, sagði Tómas Guðbjartsson, læknir í samtali við Morgunblaðið ári eftir aðgerðina. „Það var mjög sérstök stemning inni á skurðstofunni, daginn sem aðgerðin var framin. Við náttúrulega vissum ekkert hver útkoman yrði,“ segir Tómas, en aðgerðin gekk vel. Tómas var einn 28 lækna sem skráðir voru fyrir grein í ritinu The Lancet um aðgerðina. Auk Tómasar er læknirinn Óskar Einarsson í hópi þeirra 28 sem titlaðir eru meðhöfundar að greininni.

En aðgerðin á Cetir tókst ekki sem skyldi og líkami hennar hafnaði plastbarkanum. Það sem eftir lifði þurfti hún að dvelja á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa, fyrst Svíþjóð í þrjú ár og svo Bandaríkjunum þar sem hún fékk líffæragjafir. Í maí 2016 fór hún í stóra aðgerð þar sem hún fékk nýtt lunga, barka og vélinda. Aðgerðin tók 17 klukkustundir en síðar þurfti að fjarlægja vélindað vegna aukaverkana. 

Mál Macchiarini er eitt stærsta hneykslismál sem hefur komið upp á heilbrigðissviðinu undanfarin ár, segir í frétt SVT. 

Í ljós kom að Macchiarini hafði ekki gert tilraunir á dýrum né heldur fengið nauðsynleg leyfi fyrir því að framkvæma aðgerðir sem þær sem gerðar voru. Auk sjúklinganna sem Macchiarnini gerði plastbarkaaðgerðir á í Svíþjóð gerði hann fimm slíkar aðgerðir í Rússlandi. Af þeim eru fjórir sjúklingar látnir. Það þýðir að af átta sjúklingum eru sjö látnir. SVT birti í fyrra heimildarþætti um lækninn og eru þeir margverðlaunaðir. Í kjölfar birtingar þeirra voru margir af helstu stjórnendum Karolinska neyddir til þess að annaðhvort segja af sér eða voru reknir úr starfi.

Paolo Macchiarini var rekinn úr starfi hjá Karolinska en hann starfar við rússneskan háskóla í dag.

Kjell Asplund, formaður sænsku ríkisnefndarinnar um læknisfræðilega siðfræði.
Kjell Asplund, formaður sænsku ríkisnefndarinnar um læknisfræðilega siðfræði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Frétt SVT

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2017 er fjallað um plastbarkamálið svokallaða og rætt við Kjell Asplund, formann sænsku ríkisnefndarinnar um læknisfræðilega siðfræði og áður prófessor og landlækni í Svíþjóð.

Asplund er höfundur skýrslu sem birt var í lok ágúst um þátt Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í málinu þar sem Macchiarini starfaði og aðgerðirnar fóru fram.

„Í samtali við Morgunblaðið sagði Asplund það ekki fara milli mála að mesta ábyrgð bæri skurðlæknirinn Macchiarini. Þrátt fyrir það gætu aðrir sérfræðingar sem að málinu komu ekki firrt sig allri ábyrgð og vildi hann þannig ekki undanskilja ábyrgð íslenskra lækna sem áttu hlut að máli.

„Ég rannsakaði ekki hlut íslenskra sérfræðinga heldur þátt Karólínska sjúkrahússins. Mér skilst að hér sé að störfum sjálfstæð rannsóknarnefnd og fjölmiðlar fjalla væntanlega um niðurstöðu hennar þegar hún liggur fyrir. Það er ekki mitt að leggja dóm á þeirra þátt en almennt hef ég sagt að allir sem hlut áttu að máli beri einhverja ábyrgð, sama hversu takmörkuð hún er.“

Spurður um ábyrgð Karólínska sjúkrahússins, og þá sérstaklega bótaábyrgð þess þrátt fyrir stöðu Macchiarinis og meinta sök hans í málinu, segir Asplund það vera spurningu fyrir sérfræðinga á öðru sviði.

„Fyrst og fremst horfi ég til hinnar siðferðilegu ábyrgðar og leyfi lögfræðingum og dómstólum að meta grundvöll bótaábyrgðar.“

 Ábyrgð sjúkrahússins

Í fyrirlestri sínum fór Asplund yfir ráðningu Macchiarinis og segir ábyrgð Karólínska sjúkrahússins vera ríka þar.

„Það var auðvelt að réttlæta ráðningu Macchiarinis þegar eingöngu er horft á ferilsskrá hans en litið fram hjá t.d. samstarfserfiðleikum á öðrum sjúkrahúsum sem hann hefur starfað á og öðrum þáttum,“ sagði Asplund og benti jafnframt á að krafa hefði verið frá sænska háskólasamfélaginu um að Macchiarini yrði ráðinn til Karólínska sjúkrahússins og Karólínsku stofnunarinnar.

„Ráðningarferli verður að vera óháð kröfu háskólasamfélagsins og gera þarf ríkari kröfur til skoðunar á bakgrunnsupplýsingum einstaklinga,“ sagði Asplund.

Freistingin að fara á svig við lög og reglur getur verið rík þegar ástríðan fyrir velferð sjúklingsins er annars vegar og segir Asplund heilbrigðisstarfsfólk verða að fylgja regluverkinu.

„Við setjum lög og reglur til þess að tryggja öryggi og velferð sjúklinga. Læknar eru oft drifnir áfram af ástríðu til að hjálpa sjúklingum en það má aldrei og getur aldrei réttlætt brot á lagarammanum sem við eigum að starfa innan,“ segir Asplund og tók það sérstaklega fram í fyrirlestri sínum að barkaígræðsla Macchiarinis hefði átt að fara fyrst fyrir sænsku siðanefndina.

„Það er mjög ólíklegt að aðgerðin hefði fengið samþykki nefndarinnar. Vísindalegur grundvöllur hennar var byggður á veikum stoðum.“

 Álagspróf fyrir kerfið

Tiltrú margra á Macchiarini minnir helst á trúna á íslenska bankakerfið fyrir hrun, að mati Asplunds. „Þetta er eins konar álagspróf á kerfið okkar. Það má læra margt af þessu einstaka máli og ef við gerum það þá drögum við úr líkunum á því að mál sem þetta komi upp aftur.“

Benti hann þá m.a. á verklag frá Íslandi en þrátt fyrir að skriflegt leyfi og samþykki sjúklingsins hafi legið fyrir telur Asplund þau gögn sem lögð voru fyrir sjúklinginn hafa verið of fræðileg og mögulega of flókin fyrir leikmann að átta sig á,“ segir í frétt Morgunblaðsins af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert