Minni dýr vegna hlýnunar jarðar?

Stærð dýra gæti farið að minnka vegna hlýnunar jarðar að mati vísindamanna. Sú ályktun er dregin af rannsóknum sem sýna að stærð spendýra hafi dregist saman þegar hliðstæðar loftlagsbreytingar áttu sér stað fyrir rúmlega 50 milljón árum síðan.

Fjallað er um uppgötvunina á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar segir að steingervingafræðingar hafi við rannsóknina fundið steingerða tönn forföður nútímahesta sem og steingert spendýr á stærð við kanínu með hófa. 

Tönnin hafi leitt í ljós að á hlýindaskeiði fyrir um 53,7 milljónum ára þegar hitastig á jörðinni hafi hækkað um 3 gráður hafi stærð dýra minnkað um 14%. Sérfræðingar í loftlagsmálum telji að hitastig á jörðinni muni hækka um 2-4 gráður fram að árinu 2100.

Fram kemur að miklar upplýsingar liggi fyrir um umrætt tímabil. Sumar dýrategundir hafi jafnvel minnkað um allt að þriðjungi þegar hitastig hafi hækkað um 5-8 gráður. 

Hugsanlegt er talið að stærð dýra hafi minnkað vegna þess að aðgangur að næringu hafi dregist saman vegna hlýnandi veðurfars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert