Fundu heilastarfsemi eftir andlát

Kanadískir læknar fundu dæmi þess að heilastarfsemi héldi áfram í …
Kanadískir læknar fundu dæmi þess að heilastarfsemi héldi áfram í rúmlega 10 mínútur eftir að andlát var staðfest. mbl.is/RAX

Ný rannsókn á vegum kanadískra lækna hefur sýnt fram á að heilastarfsemi getur haldið áfram í allt að 10 mínútur eftir að hjartað hættir að slá.

Í umfjöllun Science Alert kemur fram að læknar við gjörgæsludeild á sjúkrahúsi í Kanada hafi komist að þessu þegar slökkt var á öndunarvél fjögurra dauðvona sjúklinga. Heilastarfsemi eins þeirra hélt þá áfram í rúmlega 10 mínútur eftir að læknar höfðu staðfest andlát hans með ýmsum aðferðum.

Um var að ræða heilbylgjur sem á ensku kallast delta wave burst og eru samskonar bylgjur og við upplifum í djúpsvefni.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að heilastarfsemi hvers einstaklings var einstök bæði fyrir og eftir að andlát þeirra hafði verið staðfest.

Að því er fram kemur í umfjöllun Science Alert vilja aðstandendur rannsóknarinnar þó að fólk fari varlega í að túlka niðurstöðurnar enda er úrtakið í rannsókninni afar lítið og enn sem komið er aðeins eitt skráð dæmi um að heilastarfsemin hafi haldið áfram svo lengi eftir að andlát var staðfest.

Læknarnir vita ekki hver ástæðan fyrir starfseminni er en telja mjög ólíklegt að rekja megi niðurstöðurnar til mistaka þar sem allur búnaður sem notaður var við rannsóknina virkaði sem skyldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert