100 keppa um miða aðra leið til Mars

Jörðin séð úr geimnum.
Jörðin séð úr geimnum. mbl.is/EPA

Hollenska fyrirtækið Mars One hefur nú valið 100 manns í úrtak fyrir ferð aðra leiðina til Mars sem stefnt er á að farin verði árið 2024. Meira en 200 þúsund manns frá öllum heimshornum sóttu um en aðeins 24 munu hljóta þjálfun og fjórir munu fara í fyrstu ferðina.

Washington Post greinir frá niðurskurðinum en fyrr í mánuðinum var tilkynnt að 660 einstaklingar væru í úrtakinu. Tekin voru myndbandsviðtöl við nokkra þeirra einstaklinga sem hafa boðið sig fram og birt á veraldarvefnum og var þar meðal annars rætt um kynlífsleysið í geimnum og hvernig það yrði að fara frá ástvinum sínum fyrir fullt og allt.

Upprunalega var eina krafan fyrir umsækjendur að viðkomandi væri orðinn 18 ára. Samkvæmt Washington Post er stefna Mars One ekki að finna „hæfustu“ einstaklingana heldur þá sem eru hollastir málstaðnum.

Af 50 körlum og 50 konum sem nú eru í úrtakinu búa 38 þeirra í Bandaríkjunum en annars búa flestir í Kanada og Ástralíu eða sjö umsækjendur í hvoru landinu. Tveir umsækjenda voru 18 þegar þeir sóttu um árið 2013 en sá elsti, Reginald George Foulds frá Toronto var 60.

Sé litið til menntunar eru 19 sem ekki hafa fengið gráðu, tveir með diplóma gráðu, 27 með bachelor gráðu, 30 með meistara gráðu, einn með gráðu í lögfræði, fjórir í læknisfræði og sjö með PhD gráðu. Þrettán eru í námi, 81 er í vinnu og sex eru hvorugt.

„Næstu valumferðir munu einblína á að setja saman teymi sem geta þolað alla þá erfiðleika sem varanleg búseta á Mars hefur í för með sér,“ segir Mars One um það sem er framundan. „Umsækjendurnir munu fá fyrsta tækifæri sitt til þjálfunar í eftirlíkingu Mars stöðvarinnar á jörðu og sýna hæfni sína til að vinna vel í hóp.“

Ferðin með fyrstu fjóra einstaklingana er talin munu kosta um sex milljarða Bandaríkjadala. Til þess að fjármagna hana hyggst Mars One sjónvarpa því sem eftir er af keppninni um miðana til Mars. Þegar búið er að fækka umsækjendum niður í 24 verður þeim skipt upp í sex fjögurra manna lið sem munu keppa um hvaða hópur er best undir það búinn að fara til Mars árið 2024.

Fyrri frétt mbl.is: Ekkert kynlíf á Mars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert