Fluttu tonn af ösku frá Íslandi

.
. mbl.is/Skapti Hallgríms

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur sótt eitt tonn af eldfjallaösku til Íslands til þess að gera tilraunir með nýjan útbúnað sem ætlað er að vara flugmenn við því ef þeir eru að fljúga inn í öskuský svo þeir geti brugðist við og forðast það. Öskunni var safnað saman af Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Fram kemur á breska fréttavefnum Travelweekly.co.uk að ætlunin sé að nota tvær Airbus tilraunaþotur í verkefnið. Önnur þotan verður notuð til þess að skapa öskuský á meðan hin þotan verður útbúin sérstökum nemum sem vara eiga við því. Tilrauninni er ætlað að fara fram í ágúst en einnig á að notast við tvo gervihnetti til þess að taka myndir af öskuskýinu úr geimnum og veita þannig viðbótarupplýsingar um það hversu vel útbúnaðurinn reynist.

Útbúnaðurinn, sem kallaður er AVOID, er styrktur af Airbus og byggir meðal annars á innrauðri tækni sem þróuð hefur verið af Bandaríkjaher en um sé að ræða eins konar radar sem sendir flugmanninum og stjórnstöð á jörðu niðri myndir af mögulegu öskuskýi. Myndirnar eiga að gera flugmanninum mögulegt að sjá öskuský sem er í allt að 100 kílómetra fjarlægð og gera í kjölfarið minniháttar breytingar á flugáætlun til þess að forðast það.

Haft er eftir Ian Davies, verkfræðingi hjá easyJet, að ógnin frá íslenskum eldfjöllum verði áfram fyrir hendi og mikilvægt sé að ljúka hönnun AVOID-útbúnaðarins til þess að ekki komi aftur til þess að öskuský frá Íslandi stöðvi flugumferð dögum saman.

Frétt Travelweekly.co.uk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert