Segir að Viðreisn njóti samflotsins

Katrín Atladóttir og Pawel Bartoszek í Dagmálum.
Katrín Atladóttir og Pawel Bartoszek í Dagmálum. Ljósmynd/Morgunblaðið

Viðreisn kaus að efna til viðræðubandalags með Samfylkingu og Pírötum að afloknum kosningum til borgarstjórnar til þess að minnka líkurnar á því að flokkurinn yrði jaðarsettur í meirihlutaviðræðum sem nú eru í farvatninu. Þetta má lesa úr orðum Pawels Bartoszeks, fráfarandi borgarfulltrúa, en flokkur hans, Viðreisn náði ekki að tryggja stöðu sína með tvo borgarfulltrúa í kosningunum.

„Ef talningin hefur ekki klikkað hjá mér þá erum við bara með einn borgarfulltrúa og það er talsvert auðveldara að hundsa okkur ef við stöndum ein heldur en ef við stöndum með öðrum,“ segir Pawel í samtali í Dagmálum en hann er gestur þáttarins ásamt Katrínu Atladóttur sem senn hverfur af vettvangi borgarstjórnar. Hún ákvað að gefa ekki kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar nú í vor. Pawel segir að hann hafi að loknum kosningum lesið kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins og að það hafi ekki tekið langan tíma. Þar komi hins vegar í ljós að ekki beri mikið í milli hjá þeim flokkum sem misstu meirihluta sinn í kosningunum á laugardag og sigurvegurunum í Framsókn.

Katrín segir að Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, hafi farið fram undir slagorðum um breytingar. Hann muni illa geta staðið við slíkt loforð, ákveði hann að falla í faðm Dags B. Eggertssonar, ekki síst í ljósi þess að oddvitinn sjálfur, auk þeirra þriggja frambjóðenda sem náðu kjöri á lista með honum sé óreynt fólk á vettvangi borgarstjórnar.

Katrín er nú komin að nýju í tæknigeirann, þaðan sem hún kom inn í pólitíkina. Hún er sátt við tímann í borgarstjórn en viðurkennir að henni hafi ekki orðið um sel á fyrsta fundi á þessum vettvangi.

„Ég hugsaði. Ég er búin að eyðileggja líf mitt.“ Annað hafi þó komið á daginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert