Reiðubúin að svara kallinu ef það kemur

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, telur ekki raunhæft að flokkurinn komist inn í meirihlutasamstarf vinstri flokka í borgarstjórn. Auk þess telur hún ekki skynsamlegt að endurreisa gamla meirihlutann, þar sem það muni ekki falla vel í kramið hjá mörgum borgarbúum.

Möguleiki flokksins á að komast í meirihluta felist í bandalagi með Viðreisn, Framsókn og Sjálfstæðisflokknum, og líst henni ágætlega á að ganga inn í slíkt samstarf. 

„Ég hef alltaf sagt það að við viljum komast í meirihluta, til þess að geta komist til áhrifa með okkar góðu mál. Það er ekkert nýtt. Okkar mál skarast við þessa flokka að mörgu leyti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað mikið fyrir leikskólamálum og Framsóknarflokkur hefur staðið vörð um börn og barnafjölskyldur,“ segir Kolbrún við mbl.is.

„Ég sé alveg flöt á því.“

Borgarstjórastóllinn ekki aðalatriðið

Enginn oddviti hefur þó nálgast Kolbrúnu frá því að niðurstöður kosninganna lágu fyrir en hún kveðst ekki hafa búist við slíku á þessum tímapunkti. Segir hún „bara þessi óformlegu samtöl“ hafa átt sér stað.

Hún hefur verið að hvíla sig og hlaða batteríin eftir kosningabaráttuna og bíður þolinmóð eftir formlegra samtali.

„Ég er alveg róleg og ennþá bjartsýn.“

Hún segir ekki aðalatriði hver fái borgarstjórastólinn, heldur sé þetta fyrst og fremst spurning um að byrja á að laga hlutina, bæta þjónustu og taka á biðlistamálunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert