Fulltrúar 8 framboða ná kjöri

Eftir kosningar munu 23 borgarfulltrúar taka sæti í borgarstjórn. Hart …
Eftir kosningar munu 23 borgarfulltrúar taka sæti í borgarstjórn. Hart er barist um sætin og stefnir í að átta framboð nái inn manni. mbl.is/Styrmir Kári

Núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur heldur velli í kosningunum á laugardaginn, en þó með minnihluta atkvæða á bak við sig. Þetta sýnir könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið sem gerð var 17. til 21. maí. Sósíalistaflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mælast nú með einn fulltrúa hvor, en Flokkur fólksins engan sem er breyting frá síðustu könnun sem birt var 27. apríl.

Samkvæmt könnuninni fá átta framboðslistar menn kjörna í borgarstjórn. Samfylkingin er stærst með 31,8% fylgi og 8 fulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn er í öðru sæti með 26,3% sem gefur 7 fulltrúa. Píratar eru með 8% og fengju 2 fulltrúa. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er með svipað fylgi, 7,4% og fengi einnig 2 fulltrúa. Meirihlutaflokkarnir, Samfylkingin, Píratar og VG, eru með 12 fulltrúa af 23 í borgarstjórn. Á bak við flokkana er þó ekki meirihluti kjósenda; samanlagt fylgi þeirra er 47,2%.

Hægt er að skoða nánar hvernig fylgi flokka er eftir kyni, menntun og aldri í meðfylgjandi gagnvirku grafi.

Miðflokkurinn er með 6,5% fylgi og fengi einn fulltrúa kjörinn. Fylgi Viðreisnar er 4,9% sem gefur einn fulltrúa. Sósíalistaflokkurinn er með 3,9% og einn fulltrúa. Loks er Framsóknarflokkurinn með 3,6% og einn fulltrúa.

Samtals eru bornir fram 16 framboðslistar. Átta þeirra fá ekki fulltrúa. Þetta eru auk Flokks fólksins, sem er með 3,4%, Kvennaframboðið með 0,9%, Karlalistinn með 0,9%, Íslenska þjóðfylkingin með 0,8%, Höfuðborgarlistinn með 0,6%, Alþýðufylkingin með 0,6%, Borgin okkar með 0,4% og Frelsisflokkurinn sem mældist ekki með neitt fylgi. Alls svöruðu 1.610 en könnunin var send á 3.650 manns. Þátttakan er því 44%. 

Sérfræðingar Félagsvísindastofnunar segja að verði fylgi framboðslistanna í kosningunum á laugardaginn hið sama og er í þessari könnun, væri fyrsti maður á lista Framsóknarflokksins síðasti borgarfulltrúi inn, en næsti maður inn níundi maður Samfylkingarinnar.

mbl.is/Kort

Í könnuninni voru þátttakendur einnig spurðir hvern þeir vildu sem næsta borgarstjóra í Reykjavík. Flestir eða 43,5% nefndu Dag B. Eggertsson. Eyþór Arnalds nefndu 29,4% og Vigdísi Hauksdóttur 8,5%.

Þau leiðu mistök áttu sér stað við útsendingu á könnuninni á mánudaginn að svarmöguleika vantaði fyrir borgarstjórnarframboð Borgarinnar okkar og Karlalistans, en boðið var upp á að skrifa inn nöfn annarra framboða í opinn textareit. Könnunin var send á nýjan leik til allra þeirra sem höfðu svarað í gær, þannig að fólk gat lagfært svör sín ef það óskaði þess.

Í Morgunblaðinu í dag má lesa viðtöl við oddvita þeirra 8 framboða sem ná inn fulltrúa samkvæmt könnuninni.

mbl.is/Kort
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert