Bjarni Harðar leiðir í Suðurkjördæmi

Bjarni Harðarson.
Bjarni Harðarson. mbl.is

Bjarni Harðarson bóksali og Guðmundur S. Brynjólfsson, rithöfundur og djákni, leiða J-lista Regnbogans í Suðurkjördæmi. Baráttumál framboðsins eru fullveldi Íslands, sjálfbær þróun, mannréttindi, félagshyggja og bætt lífskjör.

Í frétt Sunnlenska.is segir að frambjóðendur Regnbogans vilji að aðlögunarviðræðum Íslands að ESB verði hætt.

Regnboginn er kosningabandalag framboða en ekki stjórnmálaflokkur en ætlun hreyfingarinnar er m.a. að draga úr vægi stjórnmálaflokka og stuðla að sjálfstæði kjörinna fulltrúa. Kjósendum Regnbogans er því ekki skipt upp í flokksbundna og óflokksbundna heldur sitja þar allir við sama borð, segir í frétt Sunnlenska.

Fyrstu fimm sæti framboðsins eru þannig skipuð:
1. Bjarni Harðarson bóksali
2. Guðmundur S. Brynjólfsson, rithöfundur og djákni
3. Kolbrún S. Hilmarsdóttir bókari
4. Kristbjörg Steinunn Gísladóttir meðferðarfulltrúi
5. Jónas Pétur Hreinsson iðnrekstrarfræðingur

Í stefnuskrá Regnbogans segir meðal annars um skuldamál heimilanna: 

Endurskoðun verðtryggingar og lækkun verðbólgu og vaxtakostnaðar er forgangsverkefni næsta kjörtímabils. Verðtrygging til vísitölu neysluverðs kyndir undir verðbólgu og hefur hækkað höfuðstól lána um milljónir, á heimili. Við teljum að enn séu óunnin verk eftir hrunið við að leiðrétta stökkbreytingu verðtryggðra húsnæðislána sem hafa nú þegar og eru að kollsteypa fjölda heimila. Regnboginn mun vinna að því með öðrum að verðtrygging verði afnumin og húsnæðislán leiðrétt. Ráðast verður í aðgerðir sem duga til að tryggja viðunandi eiginfjárstöðu heimilanna í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert