Málefnasamningur kynntur á Akureyri

Kristján Þór Júlíusson og Hermann Jón Tómasson, oddvitar Sjálfstæðisflokks og …
Kristján Þór Júlíusson og Hermann Jón Tómasson, oddvitar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á Akureyri.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks kynntu málefnasamning sinn í dag en flokkarnir hafa náð samkomulagi um myndun meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar kjörtímabilið 2006-2010. Í málefnasamningnum er m.a. gert ráð fyrir að skattar lækki á fyrirtæki og almenningssamgöngur verða gjaldfrjálsar frá árinu 2007, bæði hjá Strætisvögnum Akureyrar og í Hríseyjarferju. Þá mun Akureyrarbær beita sér fyrir því að vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hefjist strax á árinu 2007.

Bæjarstjóri fyrstu 3 árin verður frá Sjálfstæðisflokki en síðasta árið frá Samfylkingu. Forseti bæjarstjórnar verður frá Sjálfstæðisflokki. Formaður bæjarráðs fyrstu 3 árin verður frá Samfylkingu og síðasta árið frá Sjálfstæðisflokki.

Í málefnasamningi meirihlutaflokkanna kemur meðal annars fram ný nefndaskipan þar sem gert er ráð fyrir að jafnréttis- og fjölskyldunefnd ásamt áfengis- og vímuvarnarnefnd verði sameinaðar í fjölskylduráð sem einnig mun fara með tómstundamál; stofnuð verður ný nefnd, umhverfisnefnd, sem fer með sorpmál og málefni núverandi náttúruverndarnefndar; menningarmálanefnd verður lögð niður en menningarmál ásamt málefnum sem tilheyra kynningar- og markaðssetningu, atvinnumálum og ferðaþjónustu verða sett undir Akureyrarstofu. Stjórn Akureyrarstofu verður skipuð fimm fulltrúum bæjarstjórnar. Starfsemi og skipulag stofunnar verður nánar útfært í samvinnu við hagsmunaaðila á Akureyri.

Í málefnasamningnum eru skilgreind meginmarkmið meirihlutaflokkanna og tilgreindar helstu aðgerðir sem þeir eru sammála um að ráðist verði í í málaflokki hverrar fastanefndar. Aðgerðaáætlun fyrir framkvæmd samningsins verður unnin í september. Þar verða einstök verkefni skilgreind, tímasett, kostnaðarmetin og þeim forgangsraðað. Hér á eftir er tæpt á nokkrum áherslum málefnasamningsins.

Samkvæmt tilkynningu eru áhersluatriði málefnasamnings þessi helst:

Á sviði fjármála og stjórnsýslu er meginmarkmið flokkanna að stjórnsýsla bæjarins verði skilvirk og hagkvæm, að fjárhagur bæjarfélagsins verði traustur og að íbúar geti tekið þátt í stórum ákvörðunum. Íbúalýðræði verður aukið og þátttöku bæjarbúa í stórum ákvörðunum verður komið í skilgreindan farveg.

Leiðarljós meirihlutaflokkanna á sviði félags- og heilbrigðismála er að sveitarfélagið haldi fast við þá stefnu sína að taka við verkefnum frá ríkinu svo að ákvarðanir um þjónustu séu teknar sem næst þeim sem hennar eiga að njóta.

Á sviði skólamála verður stutt dyggilega við þróunarstarf í leik- og grunnskólum á forsendum hvers skóla fyrir sig. Unnið verður að auknu samstarfi við kennaradeild og skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri til að efla þróunarstarf í skólum bæjarins. Lögð verður áherslu á endurmenntun starfsfólks og ráðgjöf til þess.

Stefnt er að því að ávallt séu til óbyggðar lóðir fyrir ólíkar gerðir íbúðar-, þjónustu- og iðnaðar-húsa. Í boði séu íbúðarlóðir á mismunandi stöðum í bænum. Skipulag íbúða-hverfa á að miðast við þarfir fjölskyldunnar með því að lögð sé áhersla á gæði umhverfis, öryggi og greiðan aðgang að hverfisþjónustu og útivistar- og leiksvæðum. Óskað verður eftir samvinnu við Hörgárbyggð um vinnu við samræmingu skipulags á mörkum sveitarfélaganna við Lónið.

Umhverfismál heyra undir nýja nefnd, umhverfisnefnd, sem fjallar um málefni sem náttúruverndarnefnd hafði áður til meðferðar auk sorpmála. Leiðarljós Staðardagskrár 21 um sjálfbært samfélag verða jafnframt leiðarljós umhverfisnefndar. Stefnt er að því að bæjarbúar geti notið náttúrulegs umhverfis m.a. á verndarsvæðum á Glerárdal og í Krossanesborgum og að atvinnulífið verði í sátt við umhverfið. Akureyrarbær mun draga sig út úr Sorpsamlagi Eyjafjarðar b/s og stofna hlutafélag ásamt fyrirtækjum til að annast sorpförgun í bænum.

Meginmarkmið í íþróttamálum er að skapa aðstæður og ýta undir verkefni sem hvetja fjölskyldur til hollrar hreyfingar og tómstunda. Byggt verður íþróttahús við Giljaskóla sem hentar bæði íþróttakennslu við skólann og sem framtíðarhúsnæði Fimleikafélags Akureyrar. Stefnt er að því að húsið verði tekið í notkun 2008.

Ný fastanefnd, fjölskylduráð, fjallar um mál sem áður heyrðu undir jafnréttis- og fjölskyldunefnd annarsvegar og áfengis- og vímuvarnanefnd hinsvegar, auk þess sem fjölskylduráð fjallar um tómstundamál svo sem málefni félagsmiðstöðva fyrir ungt fólk. Meginmarkmið nefndarinnar felast í samþykktri jafnréttisstefnu og fjölskyldustefnu auk þeirrar stefnu að vinna gegn vímuefnanotkun ungmenna.

Markvisst verður unnið að lækkun leikskólagjalda á kjörtímabilinu. Akureyrarbær verður áfram með lægstu þjónustugjöldin í leik- og grunnskólum miðað við samkeppnissveitarfélög.

Málefni nýbúa fá aukið vægi innan bæjarkerfisins og verður markvisst reynt að mæta þörfum þessa hóps, t.d. með aðgengi að túlkaþjónustu, íslenskunámi og kynningarefni á vegum sveitarfélagsins. Alþjóðastofa verður efld í þessu skyni.

Skattar verða lækkaðir á atvinnurekstur með lækkun holræsagjalds á árinu 2007. Til að bæta stöðu framleiðslufyrirtækja mun bæjarstjórn kalla eftir aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins varðandi lækkun flutningskostnaðar.

Almenningssamgöngur verða gjaldfrjálsar frá árinu 2007, bæði hjá Strætisvögnum Akureyrar og í Hríseyjarferju. Akureyrarbær mun beita sér fyrir því að vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hefjist strax á árinu 2007.

Unnið verður að því með samgönguráðuneyti að lengja flugbraut Akureyrarflugvallar og að þar verði útflutningsflughöfn. Í þessu samhengi þarf jafnframt að skoða hvort að Akureyrarbær geti tekið við rekstri flugvallarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert