Halda áfram viðræðum um stjórn borgarinnar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kynnti nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ásamt …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kynnti nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ásamt Birni Inga Hrafnssyni og borgarfulltrúum flokkanna. mbl.is/GSH

Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson, standa nú í viðræðum um hvernig stjórn Reykjavíkurborgar verður háttað á næstunni. Enn hefur ekki verið gefið upp hverjir munu stjórna einstökum málaflokkum.

"Það hefur gengið ágætlega, við höfum talað saman í dag og ætlum að hittast á morgun," sagði Vilhjálmur í gær og bætti við að ekki væru sérstakir örðugleikar fyrir hendi. „En þetta er svolítið púsluspil þegar margir koma að. Aðalatriðið er að það veljist hæft og gott fólk í forystu. Og við erum með fullt af því.".

„Bara viðskiptafyrirtæki"
Spurður um einstök nöfn sem hafa verið nefnd í tengslum við einstaka málaflokka, sagðist Vilhjálmur engu geta svarað. Þegar Orkuveituna bar á góma sagði hann ekki ákveðið hverjir settust þar. Sagðist hann að minnsta kosti ekki ætla að taka þar sæti sjálfur, hefði aldrei sóst eftir því sérstaklega, og að hann furðaði sig á því að meiri spenna væri um stjórn Orkuveitunnar en hver færi með velferðarmálin, málefni aldraðra og fjölskyldumálin.

„Það er eins og þetta sé nafli alheimsins. Orkuveitan er bara viðskiptafyrirtæki þar sem menn fara yfir stóra samninga út af virkjunum og fleiru." Að lokum sagðist Vilhjálmur aðeins hugsa um eitt: „Það er að fara að gera eitthvað af viti!"

Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarflokksins, staðfesti að viðræður gangi ágætlega. Sjálfstæðis- og framsóknarfólk hafi tímann fyrir sér fram í aðra viku júní þegar nýi meirihlutinn hefur störf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert