Þriggja flokka meirihluti líklegur á Akureyri

Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, kemur út af …
Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, kemur út af fundi þar sem rætt var hugsanlegt meirihlutasamstarf. mbl.is/Skapti
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is
Líkur virðast töluverðar á því að flokkarnir þrír sem voru í minnihluta í bæjarstjórn Akureyrar síðustu fjögur ár myndi nýjan meirihluta í vikunni. Fari svo verður Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, að öllum líkindum næsti bæjarstjóri. Verði niðurstaðan þessi eru það söguleg pólitísk tíðindi, því meirihluti í bæjarstjórn Akureyrar hefur aldrei verið myndaður án þátttöku annaðhvort Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks.

Strax aðfaranótt sunnudagsins skrifuðu oddvitar flokkanna þriggja, Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Lista fólksins, undir viljayfirlýsingu um að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta í bænum og fyrsti fundurinn var haldinn síðdegis í gær.

Fundurinn fór fram á kosningaskrifstofu VG í göngugötunni og þar hittust Hermann Jón Tómasson, oddviti Samfylkingarinnar, Baldvin H. Sigurðsson, oddviti VG, og Oddur Helgi Halldórsson, oddviti L-listans, ásamt fleiri frambjóðendum.

Hermann Jón var boðinn fram sem bæjarstjóraefni Samfylkingarinnar í kosningunum og eftir fundinn í gær sagði hann við Morgunblaðið að það mál hefði verið rætt, Samfylkingunni þætti það ekki ósanngjörn krafa og hinir flokkarnir hefðu ekki tekið því illa.

Á laugardagskvöld, eftir að tölur höfðu verið birtar, leit fyrst út fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin myndu hefja viðræður um samstarf í bæjarstjórn Akureyrar. Raunar má segja að þær hafi farið af stað, en strax kom í ljós að ekki var grundvöllur fyrir þeim. Ástæðan var sú að sjálfstæðismenn settu það sem skilyrði að Kristján Þór Júlíusson yrði áfram bæjarstjóri en Samfylkingin féllst ekki á þá kröfu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert