Máli Eyþórs lauk með sekt og ökuréttindasviptingu

Máli Eyþórs Arnalds lauk hjá lögreglustjóra með sekt og ökuleyfissviptingu fyrir að aka undir áhrifum áfengis í Reykjavík snemma í maí. Á meðan Eyþór er sviptur ökuréttindum mun hann ekki taka sæti í bæjarstjórn Árborgar, en engu að síður vinna með Sjálfstæðisflokknum sem fyrsti maður á lista flokksins í Árborg.

„Ég mun standa við yfirlýsinguna sem ég gaf út í kjölfar óhappsins, menn þurfa ekki að hafa áhyggur af öðru," segir Eyþór við fréttavefinn Suðurland.is. Þá hefur hann tekist á við áfengisvanda sinn í samræmi við yfirlýsinguna sem hann sendi frá sér. „Ég hef verið hjá áfengisráðgjafa undanfarið og mun fara í hefðbundna áfengismeðferð í sumar."

Grímur Arnarson, fimmti maður á lista Sjálfstæðisflokksins, tekur sæti í bæjarstjórn á meðan Eyþór er í fríi. Hann gaf ekki upp í samtali við Suðurland.is hversu lengi það verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert