Kosningarnar hafa gengið áfallalaust fyrir sig á landsbyggðinni

Myndin er tekin á kjörstað í Árborg fyrr í dag.
Myndin er tekin á kjörstað í Árborg fyrr í dag. mbl.is/Guðmundur Karl

Um klukkan 16 var kjörsókn í nokkrum af fjölmennustu sveitarfélögunum á landsbyggðinni á milli 30-44%. Samkvæmt tölum frá kjörstjórninni á Ísafirði voru 1.086 búnir að kjósa klukkan 16. Í Reykjanesbæ voru 2.835 búnir á sama tíma. Þá voru 2.203 búnir að kjósa í Árborg. Klukkan 15 voru rétt rúmlega 4.000 búnir að kjósa á Akureyri og í Fjarðabyggð voru 862 búnir að greiða atkvæði.

Á Akureyri var kjörsóknin því komin í 33,3%, en þar er 12.066 á kjörskrá. Í Reykjanesbæ var kjörsóknin komin í 35,43% þegar Fréttavefur Morgunblaðsins hafði samband. Þar eru 8.082 á kjörskrá. Tæp 38% voru búin að kjósa á Ísafirði, en þar eru 2.859 á kjörskrá, og í Fjarðarbyggð var talan tæp 30%, af 2.930 atkvæðabærum mönnum. Í Árborg er búin að vera jöfn og góð kosning og voru 43,68% búnir að kjósa af 5.043 mönnum og konum.

Að sögn talsmanna kjörstjórnanna hafa kosningarnar gengið vandræðalaust að mestu fyrir sig og án stóráfalla.

Búast má við fyrstu tölum frá ofangreindum sveitarfélögum á milli kl. 22 - 22:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert