Ekki útilokað að ná átta mönnum

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ræðir við fréttamenn eftir að fyrstu tölur …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ræðir við fréttamenn eftir að fyrstu tölur birtust. mbl.is/ÞÖK

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, segist ánægður með fyrstu tölur í borginni og ánægður með að flokkurinn skuli vera að bæta við sig. „Það er mjög mjótt á milli fyrsta manns B-lista og áttunda manns á D-lista og ég vil ekki útiloka að það geti gerst að við náum átta mönnum, og förum þá jafnvel upp í 44-45%.“

Vilhjálmur segist afar þakklátur fyrir stuðninginn sem flokkurinn hefur fengið og segir ljóst að R-listinn sé fallinn. „Þetta sýnir að við erum, sem fyrr, langstærsta stjórnmálaaflið í borginni, en einnig að R-listinn er falinn, og vel það, þannig að allar hugleiðingar um það að nýr R-listi verði endurnýjaður eru samkvæmt þessum tölum fyrir bí.“
Hann segist bjartsýnn fyrir nóttina og rétt eins búast við því að ekki skýrist hvort flokkurinn nái inn átta mönnum fyrr en búið er að telja utankjörstaðaatkvæði. „Þau hafa oft ráðið úrslitum og við verðum að sjá hvað gerist, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft átt góðan hluta af utankjörstaðaatkvæðum,“ segir Vilhjálmur og bætir við. „Borgarbúar vilja breytingar og þeir vilja að Sjálfstæðisflokkurinn verði leiddur til áhrifa í stjórn borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert