Ekki gerðar athugasemdir við ávísanir

Yfirkjörstjórn í Kópavogi sér ekkert athugavert við að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi sent hluta bæjarbúa ávísun með endurgreiðslu vegna fasteignagjalda, né það að Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri hafi undirritað bréf sem fylgdi ávísuninni, segir Jón Atli Kristjánsson, formaður kjörstjórnar í Kópavogi.

VG í Kópavogi óskuðu eftir því að kjörstjórnin skoðaði hvort mögulegt væri að kosningaspjöll hefðu verið unnin. Jón Atli segir að kjörstjórnin hafi kannað málið, en í ljós hafi komið að um endurgreiðslu á ofgreiddum gjöldum hafi verið að ræða, og samkvæmt tilmælum frá félagsmálaráðuneyti hafi bærinn átt að endurgreiða sem fyrst. Ennfremur segir Jón Atli að skýringar á því að bæjarstjóri hafi undirritað bréfið felist í því að hann sem æðsti stjórnandi bæjarins beri ábyrgð á því að fasteignaskattar voru ofteknir af hluta bæjarbúa, og því eðlilegt að hann leiðrétti mistökin.

VG í Mosfellsbæ sendu yfirkjörstjórn þar í bæ einnig erindi þar sem óskað er eftir því að hún skoði meintan óleyfilegan kosningaáróður vegna ávísana sem bæjaryfirvöld hafa sent út. Þorbjörg I. Jónsdóttir, formaður kjörstjórnarinnar, segir að fjallað verði um erindið í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert