Allir flokkar fá borgarfulltrúa samkvæmt síðustu raðkönnun Gallup

Allir flokkarnir, sem bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík, fá borgarfulltrúa samkvæmt síðustu raðkönnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið sem birt var í kvöld. Enginn flokkur fær hreinan meirihluta samkvæmt könnuninni og Sjálfstæðisflokkurinn fær 7 borgarfulltrúa þrátt fyrir að hafa bætt við sig fylgi frá í gær.

Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 45% nú en var 43,7% samkvæmt könnun Gallup í gær. Fylgi Samfylkingar mælist nú 27,3% en mældist í gær tæp 25%. Flokkurinn fær fjóra borgarfulltrúa. Vinstrihreyfingin-grænt framboð mælist með 14,5% fylgi í dag og 2 borgarfulltrúa en fylgið mældist 15% í gær. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist nú 7,3% en var tæp 10% í gær. Flokkurinn fær einn fulltrúa gangi könnunin eftir. Þá mælist fylgi Framsóknarflokks 5,9% en var rúm 6% í gær. Flokkurinn nær samt einum fulltrúa samkvæmt þessu.

Fram kom, að síðasti maður inn, miðað við könnunina, sé fulltrúi Framsóknarflokks en næsti maður inn sé 8. fulltrúi Sjálfstæðisflokks.

Gallup hefur í vikunni kannað fylgi flokkanna í Reykjavík daglega. Úrtakið er alltaf 800 manns, 400 fyrstu detta út og 400 nýir bætast við á hverjum degi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert