Oddvitar allra flokka á Akureyri leggja áherslu á Háskólann

Oddvitar framboðanna sex á Akureyri, fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á laugardaginn, leggja allir mikla áherslu á uppbyggingu Háskólans á Akureyri í tengslum við atvinnumál í bænum.

Framsóknarmenn vilja stórefla Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Jóhannes Bjarnason, efsti maður á lista þeirra, vill að félagið skapi almennt góða umgjörð um bæjarlífið. "Sóknarmöguleikarnir eru margir og má þar nefna uppbyggingu ferðaþjónustu, áframhaldandi vöxt Háskólans og fjölmarga sóknarmöguleika varðandi álver á Húsavík svo eitthvað sé nefnt."

Kristján Þór Júlíusson oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri vill halda áfram að byggja upp "góða grunnþjónustu fyrir fólk og fyrirtæki og stuðla að fjölgun atvinnutækifæra. Í því samhengi eru góðir skólar, hagstætt orkuverð, góðar samgöngur og háhraða fjarskipta- og gagnaflutningar, skilvirkt stjórnkerfi og framboð lóða mikilvægir þættir."

Oddur Helgi Halldórsson oddviti L-lista fólksins, segir: "Ég er iðnaðarmaður og verktaki, sem er í beinum tengslum við almennt atvinnulíf. Ég þekki það hvað er að eiga varla fyrir laununum, þurfa að hafa áhyggjur af því að fá kannski ekki útborgað um mánaðamótin, geta ekki borgað reikningana og vera ekki einu sinni viss um hvort ég hafi vinnu í næsta mánuði. Þess vegna legg ég á það áherslu að bærinn geri rekstrarumhverfi fyrirtækja hér sem best, þannig að þau sjái sér hag í því að setjast hér að."

Hólmar Örn Finnsson, efsti maður á O-lista segir. "Við viljum leggja áherslu á uppbyggingu tengda Háskólanum. Störf við Háskólann eru vellaunuð og skila sveitarfélaginu þar af leiðandi miklum tekjum."

Hermann Jón Tómasson oddviti Samfylkingarinnar leggur einnig áherslu á eflingu Háskólans. Hann vill ennfremur taka á í atvinnumálum. "Í atvinnumálum er hlutverk bæjaryfirvalda að skapa fyrirtækjunum góð skilyrði til að vaxa og dafna svo þau geti staðist harðnandi samkeppni. Það eru fyrirtækin sem skapa atvinnutækifærin."

Baldvin H. Sigurðsson oddviti Vinstri grænna segir að fjölga verði störfum í ferðaþjónustu og hann vill að Akureyri verði fremst í flokki í ferðaþjónustu fyrir fatlaða. Þá vill hann efla Háskólann "og styðja við ný atvinnutækifæri brautskráðra nemenda."

Nánar er rætt við frambjóðendurna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert