Deilt um hugsanleg endurkaup fasteigna Reykjanesbæjar

Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is
Efstu menn á tveimur framboðslistum af fimm í Reykjanesbæ lýsa því eindregið yfir að þeir muni beita sér fyrir því að bærinn endurkaupi fasteignir sínar af Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. á komandi kjörtímabili. Tveir telja sölu eignanna á sínum tíma mistök án þess að lýsa yfir áformum um endurkaup. Efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins, sem er með meirihluta í bæjarstjórn, telur núverandi fyrirkomulag hagkvæmt.

Reykjanesbær lagði skóla, íþróttamannvirki og fleiri fasteignir inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. á síðasta kjörtímabili og síðan hefur félagið byggt talsvert fyrir bæinn. Reykjanesbær á 35% hlut í félaginu á móti öðrum sveitarfélögum og lánastofnunum. Ákvæði eru í samningum um að bærinn geti endurkeypt eignirnar á fimm ára fresti.

Málið hefur verið á dagskrá í kosningabaráttunni. A-listinn sem Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og óflokksbundnir standa að setti það á stefnuskrá sína að leysa eignirnar til baka og sagði Reynir Valbergsson bæjarstjóraefni A-listans að með því væri unnt að spara 180 milljónir kr. á ári. Guðbrandur Einarsson sagði að forsendur fyrir aðild Reykjanesbæjar að Fasteign hf. hefðu ekki staðist vegna þess að Landsbankinn, Orkuveita Reykjavíkur og önnur sveitarfélög sem stóðu að stofnun félagsins hefðu ekki lagt eignir sínar inn í félagið.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri og efsti maður á D-lista Sjálfstæðisflokksins, vekur athygli á því að aðild að Fasteign hafi verið samþykkt með tíu samhljóða atkvæðum í bæjarstjórn á sínum tíma.

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert