Samgöngubætur í brennidepli í Kópavogi

Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is
Ráðast þarf í margvíslegar framkvæmdir og úrbætur í samgöngumálum í Kópavogi á næsta kjörtímabili að mati efstu manna framboðslistanna fjögurra, sem bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum. Leggja sumir þeirra einnig mikla áherslu á eflingu almenningssamgangna í bænum.

„Lúkning Arnarnesvegar er [...] framarlega í röðinni," segir Gunnar I. Birgisson, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins. „Þá má nefna brú yfir Fífuhvammsveg, betri tengingu Lindahverfis við Dalveg, tvöföldun Dalvegar að hluta, nýja tengingu Lindahverfis við Suður-Mjódd. Einnig verða stofnbrautir Nýbýlavegar og Kársnesbrautar lagfærðar og komið verður upp nýjum hljóðtálmum við stofn- og tengibrautir þar sem þess er þörf," segir hann.

Guðríður Arnardóttir, sem skipar efsta sæti á lista Samfylkingarinnar, segir að lagning Arnarnesvegar þoli enga bið. „Það er algjörlega orðið óviðunandi ástand í umferðarmálum í Smáranum og á Dalveginum en það er vonlaust að ráðast í frekari uppbyggingu þar fyrr en vegasamgöngur hafa verið bættar. Þar er brýnt að draga umferð sem mest út úr íbúðarhverfum. Það er verkefni sem þarf að leysa strax. Auk þess þurfum við að huga að umferðaræðum á Kársnesinu ef þar á að fjölga íbúum og þar með auka umferð," segir hún.

Álagi verði dreift á umferðarmannvirki

„VG í Kópavogi hafa lagt til að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fari saman í það verkefni að skipuleggja svokallaðan fleytitíma, og dreifa þannig betur álagi á umferðarmannvirki, fremur en að leggja sífellt meira land og peninga í byggingu slíkra mannvirkja," segir Ólafur Þór Gunnarsson, sem skipar efsta sæti á lista vinstri grænna. „Leita þarf allra leiða til að létta á gegnumakstri í gegnum íbúðarhverfi. Þetta á sérstaklega við á Kársnesi og í kringum þjónustusvæðin á Dalvegi og í Smárahverfi. Þar sem það er hægt á að skoða vandlega þá möguleika að umferðin fari af yfirborðsvegum en verði í göngum eða stokkum í staðinn," segir hann.

„Unnið verði að endurskipulagningu á gatnakerfinu við Smáralind og Smáratorg, t.d. með því að tvöfalda veg milli hringtorga á Dalveginum og breyta vegstýringu á umferðarljósum," segir Ómar Stefánsson, efsti maður á lista framsóknarmanna. „Sem og setja undirgöng undir Reykjanesbrautina í framhaldi af Digranesveginum hjá Elkó. Tengingu austur- og vesturhluta höfuðborgarsvæðis með lagningu Arnarnesvegar verði flýtt. Mislæg gatnamót á mörkum Garðabæjar og Kópavogs fylgi í kjölfarið á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar."

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert