Samfylkingin kynnir stefnu í húsnæðismálum námsmanna

Auglýsingaspjald Samfylkingarinnar sett upp í dag.
Auglýsingaspjald Samfylkingarinnar sett upp í dag. mbl.is/Rax

Samfylkingin hefur sett upp skilti, þar sem stefna flokksins í húsnæðismálum námsmanna er kynnt en Samfylkingin vill m.a. byggja að minnsta kosti 800 íbúðir fyrir námsmenn. Er skiltið við hlið skiltis, sem Stúdentaráð Háskóla Íslands setti upp á horni Hringbrautar og Sæmundargötu í Reykjavík, þar sem krafist er fleiri námsmannaíbúða.

Í tilkynningu segir, að Samfylkingin ætli að tryggja borgarbúum fjölbreytt val um framtíðarhúsnæði og að allir geti fundið sér húsnæði við hæfi, ekki síst námsmenn. Samfylkingin ætli því að byggja upp að minnsta kosti 800 íbúðir fyrir stúdenta við Hlemm, í Skuggahverfi, Vatnsmýri og á Slippasvæði.

Einnig ætli Samfylkingin að stórauka framboð af íbúðum á leigumarkaði og halda áfram að byggja upp öflugan leigumarkað með því að láta einkaaðila og byggingarfélög hafa fjölbýlishúsalóðir á kostnaðarverði til að reka leiguhúsnæði miðsvæðis í borginni. Með þeim hætti verði leiga á sanngjörnu verði raunhæfur valkostur fyrir ungt fólk sem er í námi eða er að ljúka námi og hafi ekki efni á að kaupa fasteignir á tugi milljóna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert