Framsóknarflokkur og óháðir kynna stefnumál sín í Hafnarfirði: Hlynntir stækkun álversins í Straumsvík

Eftir Andra Karl andri@mbl.is
GJALDFRJÁLS leikskóli, lækkuð fasteignagjöld og fríar ferðir með strætisvögnum eru meðal stefnumála Framsóknarflokks og óháðra í Hafnarfirði sem kynnt voru í verslunarmiðstöðinni Firði í gær.

Öldrunarmálin eru einnig ofarlega á baugi hjá flokknum sem vill vinna af fullum krafti við að útfæra þær hugmyndir sem fram komu í skýrslu nefndar heilbrigðisráðherra um öldrunarmál í bænum. Forgangsverkefni er að efla heimaþjónustuna og reyna þannig að gera öldruðum kleift að búa eins lengi í eigin húsnæði og mögulegt er.

Flokkurinn vill einnig styðja myndarlega við tómstundastarf barna og ungmenna með svokölluðum frístundakortum. "Við viljum útfæra stuðninginn með öðruvísi hætti en gert hefur verið og erum að tala um fasta fjárhæð sem við köllum frístundakort. Það er fimmtíu þúsund króna fjárhæð á barn alveg til átján ára aldurs," segir Sigurður Eyþórsson, oddviti flokksins. "Það þýðir að hægt er að niðurgreiða kostnað við íþróttastarf en einnig við listnám, tónlistarnám og annað það starf sem börnin kjósa að stunda," segir Sigurður en flokkurinn hyggst jafnframt gera vel við foreldra yngstu íbúanna með því að afnema vistunargjöld á leikskólum í þrepum út kjörtímabilið. Auk þess hefur því verið heitið að fasteignagjöld í bænum hækki ekki og leitað verður allra leiða til lækka þau á næsta kjörtímabili.

Jarðgöng undir Setbergsháls?

Stækkun álversins í Straumsvík hefur mikið verið rædd í Hafnarfirði að undanförnu og er hitamál fyrir kosningarnar. Framsóknarflokkurinn og óháðir hafa lýst því yfir að vera fylgjandi þeirri stækkun og telja ákvörðunina í raun nánast hafa verið tekna. Í skipulagsmálum ber annars hæst að reyna fá meira líf í miðbæ Hafnarfjarðar og telja flokksmenn því best borgið með hugmyndasamkeppni um skipulagið. Segir Sigurður þangað vanta fleiri kaffihús, veitingahús og listasmiðjur svo fátt sé nefnt.

Jafnframt vill flokkurinn freista þess að leysa umferðarvandann sem skapast á annatíma í bænum. Stefnt er að samráði við nágrannasveitarfélög til að finna lausnir en Sigurður bendir m.a. á þá hugmynd að leggja jarðgöng undir Setbergsháls og tengja umferð úr nýjum hverfum við Reykjanesbraut þannig. Einnig vill flokkurinn leita samninga við aðra rekstraraðila að Strætó bs. um að afnema gjaldtöku í strætisvagna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert