Framfylkingarflokkurinn býður fram til bæjarstjórnar á Akureyri

Hólmar Örn Finnsson, sem skipar 1. sæti á lista Framfylkingarflokksins við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri, í lok mánaðarins, segir einn helsta tilgang framboðsins að virkja ungt fólk til þátttöku í kosningum til sveitarstjórnar og í stjórnmálum almennt.

"Margt af því sem við leggjum áherslu á er það sama og aðrir tala um, en bæjarpólitík er oft þannig. Þar snúast hlutirnir oft frekar um það að kjósa ákveðið fólk en um málefnin," sagði Hólmar Örn þegar flokkurinn kynnti stefnuskrá sína. "Ungliðahreyfingar flokkanna hafa oft hátt í kosningabaráttunni en þess á milli finnst okkur lítið heyrast í þeim," sagði hann.

Á meðal þess sem framboðið leggur áherslu á er eftirfarandi:

* Tryggja að Akureyri laði til sín fyrirtæki með því að skapa þeim góðar aðstæður, góð rekstrarskilyrði og bjóða þeim hentugar lóðir fyrir starfsemi sína.

* Skapa kjöraðstæður fyrir sprotafyrirtæki og alla nýsköpun.

* Akureyri verði þekkingarbær þar sem vel er búið að háskólanum og fyrirtækjum á sviði rannsókna og vísinda.

* Framfylkingarflokkurinn vill beita sér fyrir flutningi opinberra stofnana til Akureyrar.

* Koma á samstarfi Svæðisvinnumiðlunar Norðurlands eystra og fyrirtækja á Akureyri um að virkja kraft atvinnulausra.

* Fella niður fasteignagjöld fyrsta árið hjá þeim sem kaupa sér íbúð í fyrsta sinn á Akureyri til þess að draga fleira fólk til bæjarins og til þess að halda í fólk sem sest hér að t.d. vegna háskólanáms.

* Þétta byggðina, t.d. með byggingu fleiri íbúða í og við miðbæinn.

* Bættar verða merkingar í og við bæinn og sett upp kort með leiðalýsingu við aðkomuleiðir.

* Gerðar verði ráðstafanir til að gera bæinn meira aðlaðandi fyrir ferðamenn að dvelja í. T.d. mætti skoða þá hugmynd að gerð verði baðaðstaða við skautahöllina. Með því að leiða heitt vatn í tjörnina við skautahöllina, í svipuðum dúr og Nauthólsvík.

* Janúarfest, samstillt átak bæjaryfirvalda og fyrirtækja í bænum til að draga ferðmenn til bæjarins.

* Halda í hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

* Vímuvarnir auknar svo forða megi æskufólki frá því að lenda í viðjum eiturlyfja.

* Framfylkingarflokkurinn mun beita sér fyrir opinni umræðu um forvarnir í bæjarfélaginu og leita lausna í samvinnu við aðra.

* Skemmtanastjórar á öll dvalarheimili. Tilgangur þeirra er að skipuleggja menningartengda viðburði á dvalarheimilum s.s. kvikmyndasýningar, ferðir og fleiri viðburði til að uppfylla þarfir vistmanna.

* Heldriborgaraskólinn fyrir 60 ára og eldri. Í HBS væri fjölbreytt nám fyrir heldri borgara s.s. tölvunám og tungumálanám.

* Heldri borg: Skipulagt framtíðarsvæði með íbúðum fyrir 60 ára og eldri ásamt dvalarheimil og þjónustumiðstöð.

* Framfylkingarflokkurinn vill efla íþróttastarf á Akureyri með því að færa starf íþróttafélaga inn í grunnskóla. Búa þannig til samfelldan skóladag og fjölbreyttara val.

* Aukin niðurgreiðsla á íþrótta- og tómstundastarfi barna og unglinga.

* Ýta undir starfsemi sjálfstæðra menningarhópa í sviðslistum og tónlist og stuðla að því að verk myndlistarmanna njóti sín í bænum.

* Efla safnastarf í bænum með því að nýta sem best aðstöðu og eignir bæjarins, til dæmis með sjóminjasafni í nýja menningarhúsinu, náttúruminjasafni í gamla barnaskólanum og aðstöðu til listastarfsemi í leikhúsinu þegar það flytur í menningarhúsið.

* Virkja krafta listamanna í þágu leik- og grunnskóla.

* Treysta mannlíf í miðbænum og gera hann fjölskylduvænan á ný, með því að byggja fleiri íbúðir í miðbænum og hraða skipulagi miðbæjarins með fleiri grænum svæðum. Efla Akureyrarvöll sem útivistar- og menningarsvæði og tengja það lista- og menningarstarfsemi í bænum.

* Göng verði gerð í gegnum Vaðlaheiði.

* Gjaldtaka í strætisvagna Akureyrar verði felld niður.

* Efla það góða starf sem unnið hefur verið í þeim leikskólum sem bærinn rekur.

* Tryggja bættan hag Háskólans á Akureyri jafnvel með beinni aðkomu bæjarins, t.d. með því að kosta lektora við skólann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert